Þór áfram í deild þeirra bestu

Meistaraflokkur Þórs í fótbolta tók á móti Skagamönnum í gær. Fyrir leikinn voru skagamenn fallnir, en Þór þurfti á sigri að halda til að tryggja sæti sitt áfram í Pepsi deilda karla.

Víkingur Ó. var í fallsæti fyrir leikinn með einu stigi minna en Þór og því hefði Víkingur getað komist yfir Þór með sigri á Fylki á sama tíma í Árbæ. Víkingur tapaði hins vegar og Þórsarar sigruðu og Þór því með sæti í Pepsi deildinni að ári.

Leikurinn hófst af miklum krafti. Strax á annari mínútu skoraði Chukwudi Chijindu fyrsta og eina mark leiksins. Chuk fékk boltann eftir að Edin Besljia fór fyrir sendingu skagamanna og kom Edin boltanum inn í teig, á Chuk, sem skoraði örugglega.
Eftir markið sóttu bæði lið töluvert, en ekki af miklu öryggi og náði hvorugt liðið að nýta þau færi sem þau fengu. Færin voru fæst verulega góð, en þó var eitt og eitt færi sem bæði lið hefðu getað skorað úr. Srdjan Rajkovic, markvörður Þórs var tvívegis nálægt því að fá mörk á sig eftir of löng úthlaup, en allt kom fyrir ekki og 1 - 0 sigur heimamanna staðreynd.
Gunnar Jarl, dómari leiksins, dæmdi leikinn vel og var ekki að veifa spjöldum mikið. Það var ekki fyrr en á 79. mínútu sem fyrsta gula spjaldið leit dagsins ljós. En það var ÍA maðurinn Jóhannes Karl Guðjónsson sem fékk það, seinna gula spjaldið í leiknum kom síðan 8 mínútum síðar og fékk Eggert Kári Karlsson, sem kom inná um 20 mínútum áður, það spjald. Gunnar leyfði leiknum að ganga mjög vel og á hrós skilið, ásamt dómarateymi hans, fyrir fína frammistöðu í leiknum.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir