Þór/KA - Valur í Lengjubikar kvenna

Jóhann Kristinn, þjálfari Þór/KA. Mynd/thorsport.is

Kvennalið Þór/KA fær Valsstúlkur í heimsókn í Bogann annað kvöld, fimmtudaginn 22.mars, þegar liðin munu mætast í Lengjubikarnum. Þór/KA hóf leik um síðustu helgi er Fylkir kom í heimsókn þar sem gestirnir fóru með 1-2 sigur af hólmi. 

Jóhann Kristinn Gunnarsson var ráðinn þjálfari liðsins í vetur en hann hefur áður þjálfað karla- og kvennalið Völsungs á Húsavík. Landpósturinn heyrði í honum hljóðið.

Hvernig líst þér á hópinn og fyrstu mánuðina í starfi?

,,Þeir hafa verið fínir bara. Maður hefur verið að kynnast hópi sem er mjög ungur og ekki stór en stelpurnar hafa staðið sig vel. Tekið vel á og bætt sig mikið.”

,,Ég geri alltaf miklar væntingar til liðsins. Við viljum vinna alla leiki sem við förum í og það breytist ekkert þó það hafi ekki tekist í fyrsta leik og Valur sé andstæðingurinn í næsta. Við erum ekki með flókin markmið fyrir sumarið. Okkur langar að ná langt í þeim keppnum sem eru í boði,” sagði Jóhann um kröfur sínar til liðsins.

En á að leitast til þess að styrkja liðið enn frekar?

,,Við erum búin að ganga frá samningum við þrjá bandarískar stelpur. Markmaður og tveir sóknarmenn. Þær koma í kjölfarið á Katrínu Ásbjörns, Hafrúnu Olgeirs og Þórhildi Ólafs. Kjarninn sem fyrir er hefur verið duglegur að undirbúa sig fyrir samkeppni við þessar stelpur svo nú er að sjá úr hverju stúlkurnar eru gerðar. Þá er ég auðvitað bæði að tala um þær sem fyrir eru og þær sem við höfum fengið til okkar. Kanarnir koma líklega ekki fyrr en í lok apríl svo enn er tími fyrir heimastelpurnar til að sýna sig og sanna fyrir þjálfurum og áhangendum. Lengjubikarinn er tilvalinn til þess,” sagði Jóhann að lokum í samtali við Landpóstinn.

Leikur Þór/KA og Vals hefst kl.20.15 í Boganum og hvetjum við alla áhugamenn til þess að mæta en Valsliðið hefur verið eitt öflugasta lið landsins undanfarin ár. Bryngeir Valdimarsson mun dæma leikinn og honum til aðstoðar verða Kristján Ari Sigurðsson og Marinó Steinn Þorsteinsson. 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir