Þorrablót á Húsavík

Glæsilegur salur!

Húsvíkingar tóku forskot á sæluna og héldu hið árlega þorrablót í íþróttahöllinni á Húsavík og ég ákvað það fyrir löngu að ég ætlaði að mæta þangað. Það er kvenfélagið á staðnum sem sér um að undirbúa og skipuleggja það á ári hverju og í þau skipti sem ég hef komið þangað finnst mér þær alltaf standa sig jafn vel.

Í ár settu húsvíkingar og nærsveitungar nýtt fjöldamet en það voru um 640 manns sem mættu á borðhaldið. Að gömlum sið var borðaður þessi gamli „góði“ íslenski þorra matur, sjálf borðaði ég mest af hangikjötinu en lagði ég ekki í hákarlinn fyrr en eftir um það bil 4 bjóra. Gísli Einarsson fréttamaður með meiru var veislustjóri og hann náði að halda rosalega skemmtilegri stemmningu í salnum. Það var mikið sungið og tekið var fyrir minni karla og kvenna ásamt fleiri góðum skemmtiatriðum.

Eftir borðhaldið var svo haldinn dansleikur þar sem hin frábæra hljómsveitin SOS hélt uppi stuði fram á nótt. Dansaðir voru  allir gömlu góðu dansarnir, kokkurinn (hringdans) var tekinn og dansgólfið fylltist í hvert skipti, konur í innri hring, karlar í ytri hring og alltaf gaman að dansa við nýjan og nýjan félaga.

Sjálf var ég að mæta í mitt þriðja skipti og skemmti ég mér alltaf aðeins betur heldur en í fyrra og það er ekki spurning um að ég mæti aftur að ári liðnu.

Svala Hrund Stefánsdóttir

 

Mynd: Svala Hrund Stefánsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir