Þorrablót í Mývatnssveit

Hótel Reynihlíð við Mývatn
Þorrablót verður haldið í Myllunni veitingahúsi í Hótel Reynihlíð laugardaginn 9 febrúar næstkomandi.  Þorrablót þetta verður með nokkrum öðrum hætti en venja er til og mun standa allan daginn frá morgni til kvölds.  Þar verður matargyðjan tilbeðin og íslenskur sveitamatur í hávegum hafður í öll mál og dugar ekkert minna en heill dagur til þess. 

 

Veislan hefst með því að borinn verður fram hafragrautur með súru og nýju slátri til morgunverðar.  Í hádeginu verður grasystingur og mjólkurgrautur með ýmsum súrmat, má þar telja bringukolla, punga, lundabagga, sviðasultu, hvalrengi og fleira, auk þess flatbrauð og hið rómaða Bjarnarflagsbrauð.  Til síðdegishressingar verður boðið uppá nýbakaða kleinur og ástarpunga með kaffi eða te.  Lokahnykkur þessarar miklu matarveislu er svo kvöldverðurinn, en þar verður boðinn hákarl og harðfiskur, hangikjöt í ýmsum gerðum, auk þess sviðakjammar og sulta, með þessu öllu viðeigandi meðlæti, þar með talinn Brennivínssnafs. 

Milli mála er heilmikil útivistardagskrá að hætti hússins. Boðið er uppá gönguferðir og skíðagöngu um nágrennið eða vélsleðaferðir um hálendið norðan Mývatns allt með leiðsögn kunnugra heimamanna.  Hægt er að leigja búnað til skíðagöngu og vélsleða á staðnum ef þess er þörf. Seinnipartinn er svo upplagt að skola af sér í Jarðböðunum fyrir kvöldskemmtunina.  Til skemmtunnar í kvöldverðinum verður óvæntur ræðumaður og Valmar Väljaots og fleiri sjá um tónlistaratriði. 

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á netfanginu petur@reynihlid.is

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir