Þorrinn

mynd úr safni

Þorrinn er fjórði mánuður ársins samkvæmt gamla norræna tímatalinu og hefst alltaf á föstudegi milli 19. og 25 janúar. Sá dagur sem er bóndadagur hófst í ár þann 21. janúar en Þorrinn er allt þar til kemur að konudeginum en þá byrjar Góa. Þorrinn er sá tími þar sem fjölskyldur, vinir, samstarfsmenn, sveitungar og aðrir koma saman til að lyfta sér upp, borða íslenskan mat og þá er tilheyrandi að skella í sig slatta af brennivíni og hafa vel kæstan hákarl með. 

Þorrablót eru haldin um allt land og sumstaðar eru þau það vinsæl að biðlistar hafa  myndast til að komast á þau. Hér í Eyjafirði verður eitt slíkt þorrablót haldið þar sem um 600 manns munu koma saman í ár. Þó að þorrablótin séu alltaf sívinsæl er ekki hægt að segja það sama um þorramatinn. Þorramatur saman stendur af ýmsum íslenskum þjóðarréttum og hægt er að nefna svið, súra hrútspunga, hákarl, sviðasultu og fleiri rétti sem hvorki hljóma vel í eyrum, lykta vel né líta neitt svakalega vel út. Áður fyrr var þorramatur borðaður allan ársins hring en sést nú aðeins á Þorranum utan við nokkrar undantekningar eins og slátur og harðfisk.

Nú eru það aðallega eldri kynslóðir sem gæða sér með bestu lyst á þorramat en mér finnst alltaf gaman að sjá þegar að ungt fólk þykir hann góður. Leikskólar í dag reyna að hafa hann á matseðlinum á Þorranum og er það hefð á mörgum leikskólum að hafa þorramat í boði á bóndadeginum. Það er nefninlega þannig að fæst börn fá nokkurn tíman slíkan mat heima hjá sér. Þó mér sjálfri þyki þorramatur ekkert sérstakt lostæti þætti mér samt mjög leitt að sjá hann aldrei á borðstólnum. Mér finnst mikilvægt að við reynum að kenna börnum að meta þennan sérstaka íslenska mat en ekki bara pizzur, pasta og mat frá erlendum þjóðum. Það er mikilvægt að halda í íslenska menningu og siði og er íslenskur þorramatur stór partur af því.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir