Þursar á ferð

Hinn íslenski Þursaflokkur

Þursaflokkurinn var að spila á Græna hattinum um helgina og var ég svo einstaklega heppin að fá í afmælisgjöf frá góðum vini tvo miða á auka tónleikana. Þeir voru á laugardagskvöldinu og byrjuðu ekki fyrr en á miðnætti og þvílík tilhlökkun.

 

 

 

Ég fann mér sæti úti í horni með bjór og var orðin alveg ferlega spennt (ég hef haldið upp á Þursaflokkinn lengi þó svo að þeir voru uppi á sitt besta um það leytið sem ég var að fæðast). Þegar ég var búin að sitja þarna í smá stund kom reykur skyndilega úr loftinu, ljósin voru aðeins dempuð og félagarnir stigu á stokk. Ég fékk gæsahúð strax við fyrsta lag og má segja að hún hafi haldist allan tímann sem þeir voru að spila.

 

Þvílík snilld að hlusta á þá og ég gjörsamlega gleymdi mér í tónlistinni hjá þeim. Mér fannst þeir varla vera byrjaðir þegar að það var komið að pásu hjá þeim, ágætt að geta gefið sér tíma til að standa aðeins upp, ná sér í öl og koma sér í sætið aftur. Svo byrjaði seinni hlutinn af tónleikunum og vááá, ef mér fannst fyrri hlutinn góður þá var seinni hlutinn bara betri. Ekki skemmdi það svo fyrir að áður en þeir spiluðu ,,pínulítill karl“ tóku þeir sig til og tileinkuðu mér það lag! Það var bara til að toppa kvöldið endanlega hjá mér.

Þegar að tónleikarnir voru búnir og ég búin að þakka þeim félögum Agli og Tómasi kærlega fyrir mig var það virkilega ánægður einstaklingur sem rölti niður á BSO til að taka leigubíl heim.

Mér finnst það alveg frábært þegar að menn koma með góðar endurkomur og verður ekki annað sagt en að Þursaflokkurinn hafi komið með eina slíka. Ég segi bara áfram Þursar og ef ég fæ færi á að skella mér aftur á tónleika með þeim þá hugsa ég mig ekki um tvisvar.

 

 

Monika Margrét Stefánsdóttir

 

Mynd: Monika Stefánsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir