Tilgangur lífsins

Það var einn rigningarmorgun sem ég var dregin öfug út úr rúminu mínu af föður mínum. Yndælis kall, ekki misskilja. Allir mínir jafnaldrar voru eflaust sofandi í hlýju rúmunum sínum, þetta var haustið 2004 að mig minnir þegar kennaraverkfallið svo kallaða var. Þetta var einnig tíminn þar sem Survivor var sjóðandi heitur þáttur sem og 70 mínútur og Paradise Hotel á Popp TíVí.

Klukkan var sjö að morgni og ég þurfti að drífa mig frammúr til að gera mig til fyrir vinnu. Pabbi rak á þeim tíma réttingar- og bón stöð í Borgartúninu í Reykjavík. Við fjölskyldan bjuggum á Akranesi svo við tók 40 mínútna keyrsla í vinnu. Það að þrífa og bóna bíla allan liðlangan daginn, á algjörum karlavinnustað þar sem klósettaðstaðan var ekki þrifin, aldrei. Og almanök af beru kvennfólki hékk á kaffistofunni,  var nú ekki alveg draumur hverrar 14 ára stúlku en ég gerði góðan "díl" við pabba og fékk heilar 400 krónur á tímann. Svo ég sætti mig við þessi hlutskipti og mætti til vinnu á hverjum morgni þessa þrjá mánuði sem kennarnir voru í verkfalli.

Einn daginn í einni kaffipásunni rak ég augun í gamalt fréttablað. Dálkur sem kallaður var „Bakþankar“ eftir núverandi borgarstjórann okkar íslendinga, Jón Gnarr. Þessi grein hefur setið í mér í 8 ár – ég reif greinana úr blaðinu, pikkaði inn í tölvuna textann, prentaði textan síðan út og hengdi á vegg inní herberginu hjá mér. Eftir mikið hnjask og þrjá flutninga hangir þessi texti enn uppá vegg. Mig langar að deila þessum texta með ykkur, ef ykkur er sama.

Tilgangur lífsins.
Það er skrítið þetta líf. Maður kemur hingað algjörlega óundirbúinn. Maður bað ekki um neitt, maður pantaði ekki neitt. Maður fær ekkert námskeið eða notkunarleiðbeiningar; maður bara er‘ann og á svo að reyna að bjarga sér eftir bestu getu. Maður fær ekki einu sinni að velja sér foreldra. Þeir eru valdir fyrir mann og eru oftar en ekki fólk sem maður hefði aldrei valið sjálfur ef maður hefði fengið eitthvað um það að segja.

Öllu fer aftur í heiminum. Allt eyðist fyrr eða síðar. Alls staðar er hnigning. Maður hningnar sjálfur og hrörnar. Líkaminn hrörnar. Vitsmunir hrörna. Með aldrinum missir maður hæfileikann  til að læra eða muna. Ekkert þroskast nema sálin. Því hallast ég að því að þar sé falinn tilgangur lífsins.

Leitin að tilgangi lífsins ber mann oft um grýtta og erfiða leið sem vörðuð er af gátum og þversögnum. Þeir sem byrja að leita þurfa fyrst að leita að sjálfum sér. Þeir sem finna sjálfa sig komast að því, eftir mikil erfiði, að til þess að finna sig þarf maður fyrst að týna sér og finna sig síðan aftur í öðrum. Kannski að það sé það sem Guð er að reyna að gera með okkur.

Lífið er eins og fótbolti. tilgangur fótboltaleiks er ekki að vinna, eins og gæti virst við fyrstu sýn, heldur að læra og samhæfa sig með öðrum og umfram allt hafa gaman af því að spila fótbolta. Árangur næst með æfingu, erfiði og aga.
Knattspyrnumaður nær ekki árangri fyrr en hann hættir að reuna ná árangri upp á eigin spýtur, hættir eigingirni sinni og finnur sér samhljóm með örðum.Með því að láta af eigingirni nær hann árangri. Og með árangrinum fær hann viðurkenningu frá áhorfandanum sem hefur gefið honum orku til að ná enn lengra.

Lífið er erfitt. Þegar uppi er staðið þá er sálin það eina sem maður á og svo fáum við ekki að eiga hana fyrr en við höfum afsalað okkur eignarréttinum á henni. Tilgangur lífsins er að þroskast. Það er að þroskast og taka fagnandi á móti meiri verkefnum til að þroskast meira. Og við verðum að hafa gaman af því. Maður verður að hafa gaman af öllu þessu veseni sem þetta líf er. Ef maður hefur ekki gaman að því þá er það einskins virði.“


Kristín Þóra Jóhannsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir