Tilvalin afþreying í skammdeginu

Mynd úr einkasafni
Puttaprjón er eitt af því fyrsta og algengasta sem börn læra í textílmennt. Það eru til nokkrar mismunandi leiðir til að puttaprjóna og má útfæra puttaprjónið á ýmsa vegu. Þetta er tilvalin afþreying í skammdeginu og allir hafa gaman af, litlir sem stórir.  Það eina sem þú þarft er garn, skæri og nál.
Aðferð: veljið garn sem nota á í puttaprjónið. Takið endann á garninu og leggið það inn í lófann á vinstri hendinni (hægri hendinni sé viðkomandi örfhentur), setjið bandið svo á víxl fyrir framan og aftan puttana til skiptis svona: Setjið bandið aftur fyrir vísifingur, fram fyrir löngutöng, aftur fyrir baugfingur og fram fyrir litla fingur. Snúið þá við og gerið akkurat öfugt til baka svona: aftur fyrir litla fingur, fram fyrir baugfingur, aftur fyrir löngutöng og fram fyrir vísifingur. Þá er búið að leggja bandið á víxl um fingurna. Umferðir 1. Takið þá bandið og vefjið því einn hring um alla fingurna í einu svona: vefjið bandinu aftur fyrir alla fingurna og svo fram fyrir alla fingurna, endið með að láta bandið lafa niður milli þumalfingurs og vísifingurs. 2. Þá takið þið lykkjuna (sem er utan um vísifingur) og lyftið henni yfir bandið (sem er vafið utan um alla fingurna) og steypið lykkjunni fram af fingrinum. Endurtakið þetta við alla fingurna. Þegar því er lokið er bandinu aftur vafið utan um alla fingurna í einu.

 Mynd úr einkasafni 

Endurtakið þessar umferðir og togið í spottann sem er í endanum (spottinn sem var inni í lófanum í upphafi) reglulega inn á milli til að lengja í puttaprjóninu. Puttaprjónið svona áfram uns þið hafið náð þeirri lengd á puttaprjónið sem þið óskið. Þegar hæfilegri lengd er náð er endinn tekinn og dreginn inn í allar lykkjurnar og togað í spottann uns lykkjurnar hafa allar dregist saman. Að lokum má svo útbúa eitthvað skemmtilegt úr puttaprjóninu svo sem trefil, slöngu, blóm, eða hvað sem ykkur dettur í hug. Góða skemmtun.

Sjónrænar leiðbeiningar á ensku á vefnum youtube.com 

Ingibjörg Snorrad. Hagalín


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir