Tímaskortur Akureyringa

Það er betra að nýta tímann en eyða honum. Mynd: lostinfitness.blogspot.com

Tímasparnaður er orð nútímans. Á þjóðfélaginu dynja auglýsingar með nýjum tækjum sem spara tíma og orku, nýjar leiðir til þess að komast í form á sem stystum tíma. Bílar eru sparneytnir en samt hraðskreiðir á sama tíma. Íslendingar eru nefnilega upp til hópa alltaf að flýta sér. Við viljum ekki missa af neinu en endum jafnvel á því að missa af miklu á einum stað þar sem við vorum lögð af stað á þann næsta. Eitt besta dæmi sem undirritaður hefur heyrt um þetta var í uppistandi Bjarna Hauks, „Pabbinn“. Þar talaði Bjarni um hversu nauðsynlegt það hefði verið að drykkjarjógúrt voru sett á markað. Nú þyrfti maður ekki að eyða heilu og hálfu tímunum í að sporðrenna einni jógúrtdós eða skyrdollu. Íslendingar væru svoleiðis alltaf í stressinu að þetta hefði verið frábær lausn!

Undirritaður hefur búið í Garðabæ alla sína tíð, utan fyrstu áranna sem hann man mjög óljóst eftir. Á höfuðborgarsvæðinu voru fjarlægðir alltaf frekar afstæðar. Vegatengingar eru það góðar að auðvelt er að komast frá Hafnarfirði og niður í miðbæ Reykjavíkur á nokkuð stuttum tíma, sé umferðin viðráðanleg. Við upphaf og enda vinnudagsins er umferðin yfirleitt þung og tíminn sem fer í ferðalagið er þar af leiðandi meiri. Það væri jafnvel stundum hægt að sporðrenna jógurtdós á leiðinni – með skeið!

Þar af leiðandi gat það verið erfitt að áætla þann tíma sem til þurfti í að koma á sér á milli staða innan höfuðborgarsvæðisins. Gullni meðalvegurinn virkaði vel, maður gaf sér þann tíma að ef umferðin væri mikil, þá kæmi maður aðeins of seint. Ef hún væri lítil, þá kæmi maður aðeins of snemma. Annað gilti um Garðabæinn sjálfann. Þar gat ég stólað á það að vera alltaf þrjár mínútur að keyra í búðina, fimm mínútur á fótboltavöllinn og svo framvegis.

Fyrir ári síðan flutti ég til Akureyrar. Tilfinningin var, og er, góð. Hér er stutt í allt, aldrei umferðartarfir að einhverju ráði og ég hef aldrei komið of seint vegna þess að ég gaf mér of lítinn tíma til þess að komast á milli. Þvert á móti er maður enga stund að komast frá öðrum enda bæjarins að hinum. Mér fannst þetta frábært, ég gat setið heima hjá mér með skyrdollu og þurfti ekki að gleypa hana í tveimur skeiðum til þess að verða ekki of seinn.

Þar sem ég er í feðraorlofi fer ég reglulega í göngutúra með dóttur mína. Nýlega gekk ég yfir svæðið þar sem áætlað er að leggja hina svokölluðu Dalbraut. Það var snjór úti og erfitt að fara yfir þetta svæði með vagn, sem ég varð þó að gera til þess að komast heim. Í snjónum vöru mörg spor eftir börn sem höfðu fyrr um morguninn gengið í skólann. Hvað verður um þeirra gönguleið þegar Dalbrautin hefu verið lögð?

Þeir sem mælt hafa hvað mest með því að þessi braut verði lögð segja að hún muni spara tíma. Hvaða tíma? Tímann sem fólk á með fjölskyldum sínum eða í vinnunni? Akureyri er lítill bær og það tekur enga stund að komast á milli staða. Tilhvers að leggja enn eina götuna? Tíminn sem sparast er óverulegur og fólk ætti frekar að hugsa um hvernig það nýtir tíma sinn. Það besta sem þú eyðir í barnið þitt er tími.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir