Tónleikar á Græna hattinum

Í kvöld verða tónleikar með hljómsveitinni Jakobínurínu á Græna Hattinum. Tónleikarnir hefjast kl. 22 en húsið opnar kl. 21. Forsala miða er í Eymundsson og miðaverð er 1500kr. 

 

Hvað er Jakobínarína?

Hljómsveitin kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hún vann Músíktilraunir 2005 og kom svo fram á Iceland Airwaves sama ár þar sem þeir spiluðu á Grandrokk fyrir troðfullum sal í gríðarlegri stemmningu og vöktu mikinn áhuga þeirra sem þar voru staddir fyrir frábæra sviðsframkomu. Sveitin hefur síðan vakið áhuga erlendis og Landpóstinum lék forvitni á að heyra meira um hvað væri að gerast hjá Jakobínurínu og hringdi í Björgvin bassaleikara sem var til í að segja okkur meira um málið: „Þetta eru fyrstu tónleikarnir okkar á Íslandi í haust og þeir allra fyrstu sem við spilum á landsbyggðinni og við erum bara mjög spenntir“

Plata á leiðinni

Strákarnir eru búnir að vera að vinna að plötu sem ber heitið The First Crusade. Platan kemur út 1. október og er fyrsta plata hljómsveitarinnar. „Við kláruðum að taka hana upp í janúar á þessu ári en svo er búið að vera að vinna hana síðan.“ Það er greinilega mikið lagt í vinnsluna á plötunni en Björgvin segir mér að hún hafi verið tekin upp í Wales, mixuð í Liverpool og svo masteruð í London. Einnig hafa drengirnir fengið til liðs við sig góða fagmenn við vinnslu myndbanda en það er ljósmyndarin Alasdair McLellan sem leikstýrir nýjasta myndbandinu þeirra sem er við lagið His lyrics are disasterous. Hægt er að horfa á myndbandið á vef hljómsveitarinnar www.jakobinarina.com

 

Á leið á túr

Tónleikarnir í kvöld eru þeir fyrstu af meira en 30 tónleikum sem búið er að bóka í haust. Fyrst verða þrennir tónleikar í Reykjavík en síðan liggur leiðin til Bretlands þar sem þeir spila með hljómsveitunum To my boy og The Cribs en í lok október leggja þeir upp í tónleikaferðalag með hljómsveitinni Kaiser Chiefs. „Þetta eru náttúrulega mjög stór bönd svo það er alveg frábært“ segir Björgvin og það er greinilegt að það eru spennandi tímar framundan hjá hljómsveitinni. „Við erum með þrjá umboðsmenn, meðal annars þá sömu og Sigurrós var með. Við erum búnir að vera álíka mikið í Bretlandi og á Íslandi það sem af er þessu ári.“

 

Til að koma sér í stemmninguna fyrir kvöldið er handhægt að kíkja inn á myspacesíðu Jakobínurínu og hlusta á nokkur lög þar en slóðin er www.myspace.com/jakobinarina


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir