Trúarleg stef í hávegum

Flytjendur tónleikanna

Tónleikar, tileinkaðir sr. Bolla Gústavssyni vígslubiskupi, verða haldnir í Laugarborg, Eyjafjarðarsveit sunnudaginn 10.febrúar.  Tónleikarnir eru liður í dagskrá Myrkra músíkdaga, árlegrar tónlistarhátíðar Tónskáldafélags Íslands.  Gerður Bolladóttir sópransöngkona, einn af flytjendum tónleikanna, sagði í viðtali við Landpóstinn að frumflutt yrði tónverk Önnu Þorvaldsdóttur tónskálds við Almanaksljóð sr. Bolla.

Tengsl við Eyjafjörð 

Blaðamaður Landpóstsins bað Gerði að gera stutta grein fyrir uppruna sínum og tónlistarferli, en hún á sterk tengsl við Eyjafjörðinn enda dóttir sr. Bolla Gústavssonar, fædd á Akureyri og uppalin í Laufási við Eyjafjörð.  Hún hefur lagt stund á söngnám, bæði hérlendis og í Bandaríkjunum og hefur einkum lagt áherslu á ljóða- og kirkjutónlist.  Hún sagði þetta verkefni vera þriðja í röðinni er snýr að tónlistarnýsköpun frá íslenskum menningararfi, en hún hefur áður gefið út geisladiskinn Jón Arason in Memoriam, lög við ljóð Jóns Hólabiskups og geisladiskinn Fagurt er í Fjörðum sem er safn íslenskra þjóðlaga.

Höfundur Almanaksljóða

Séra Bolli Gústavsson prestur í Laufási og síðar vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal sendi frá sér ljóðabókina Borðnauta árið 1988 en í henni er að finna ljóðaflokk sem ber heitið Almanaksljóð en þar er stiklað á helstu messudögum ársins að fornu með ljóðrænum lýsingum af náttúru, veðri og bústörfum í Laufási, oft með trúarlega vísun.  Messudagarnir marka ekki aðeins rás árstíðanna heldur stika þeir út lífsferil bæði manna og málleysingja.

Anna S. Þorvaldsdóttir tónskáld

Gerður sagði Önnu hafa stundað nám í sellóleik en árið 2001 hóf hún tónsmíðanám við Listaháskólann og lauk þaðan B.A. prófi árið 2004.  Verk Önnu hafa verið flutt bæði hér heima og erlendis og hefur hún samið u.þ.b. 40 verk af ýmsum toga. Hún stundar nú framhaldsnám við University of California í San Diego.

Vinir og samferðamenn

Aðspurð um dagskrá tónleikanna sagði Gerður að þar væru með í för ljóð fjögurra annarra skálda sem allir eru eða voru vinir og samferðamenn sr. Bolla.  Hægt verður að hlýða á ljóð eftir Davíð Stefánsson, Heiðrek Guðmundsson, Hjört Pálsson og Kristján frá Djúpalæk.  Tónverkin við ljóð þeirra eru samin af núlifandi tónskáldum, þeim Ingibjörgu Þorbergs, Atla Heimi Sveinssyni, Tryggva M. Baldvinssyni og Hreiðari Inga Þorsteinssyni.  Á tónleikunum verður einnig flutt tónverkið Bærinn í skóginum eftir Jón Hlöðver Áskelsson, en verkið er samið fyrir flautu og hörpu.

Meðflytjendur Gerðar

Þegar blaðamaður innti Gerði eftir öðrum flytjendum tónleikanna sagðist hún heldur betur ekki vera ein á báti því með henni í för eru Sophie Schoonjans hörpuleikari og Pamela De Sensi flautuleikari.  Sophie hefur verið búsett á Íslandi í tvo áratugi og tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi.  Hún hefur m.a. spilað með  Sinfóníuhljómsveit Íslands og spilar jafnframt kammertónlist.  Pamela De Sensi hefur verið búsett hér í nokkur ár og starfað við kennslu auk þess að koma fram á tónleikum, en hún og Sophie hafa stofnað dúettinn “Duo Giocoso”.

Eins og áður sagði eru tónleikarnir næstkomandi sunnudag, 10.febrúar og hefjast kl. 15.00.

 

Ljósmynd:  Páll Valdimar Kolka Jónsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir