Trúbadorar og Dúndurfréttir

Dúndurfréttir og Sinfóniuhljómsveit íslands í Laugardagshöllinni

Fréttamaður Landpóstsins hitti þá Matthías “papa” Matthíasson, Magna Ásgeirsson og Ágúst Berg Kárason sem hafa verið að slá saman strengjum sínum og spila m.a á Græna hattinum. Fréttamaður ræddi við þá um það hvernig það kom til að þeir fóru að spila saman og hvernig þeir kynntust. Matti segir einnig frá því að plata sem er í bígerð hjá Dúndurfréttum er að koma út með frumsömdu efni.

Fréttam: Hvar kynntust þið?

Magni: Ég og Beggi erum búnir að þekkjast síðan í nóvember, ég og Matti ákváðum að fara að spila saman og Matti tekur vin sinn með sér sem ég hef aldrei hitt og þá kemur i ljós að hann er svona helvíti góður á bassa. En það vill svo skemmtilega til að  Beggi var fyrsti bassaleikari hljómsveitarinnar Reggae on ice og Matti var söngvarinn.

Matti: Málið var að Magni flutti til Akureyrar, ég bý á Dalvík og Beggi býr á Dalvík. Ég og Magni ákváðum að fara að spila saman, kassagítarast og svona og okkur fannst öruggara að hafa aukamann með ef við skildum detta í það og vanta far heim. Nei nei án spaugs þá ákváðum við að bjóða bassaleikara í hópinn, og það var Beggi.

Fréttam: Þið tókuð það fram á tónleikunum að þið væruð nánast óæfðir. Eru þið ekki að taka æfingar saman?

Matti: Við höfum aldrei æft og munum aldrei æfa, tónleikar eru okkar æfingar.

Magni: Eins og Björgvin Halldórsson sagði “Ég er búin að æfa”... nei nei við æfum á sviði. Við erum búnir að vera svo lengi í þessum bransa.

Þegar hér var komið við sögu þurfti Magni að fara heim þar sem hann var að fara í flug snemma morguninn eftir, en fréttamaður Landpóstsins ræddi örlítið lengur við Matta.

Magni ætlar að sjálfsögðu að halda áfram ótrauður að spila með Á móti sól og halda áfram að trúbadorast með Matta og Begga.

Fréttam: Hverjir eru það svo sem skipa hljómsveitina Dúndurfréttir?

Matti: Það eru sem sagt ég, Matthías Matthíasson, gítar og söngur. Pétur Örn Guðmundsson, söngur, píanó, orgel o.fl. Ólafur Hólm Einarsson trommuleikari,  Einar þór Jóhannsson, örvhentur gítarsnillingur úr Borgarnesi og Ingimundur Óskarsson bassahetja úr Hafnarfirði.

Fréttam: Hvenær byrjuðu Dúndurfréttir að starfa?

Matti: Ég og Pétur Örn söngvari Dúndurfrétta kynntumst í Hárinu 1994 og vorum síðan árið eftir saman í Superstar. Síðan vorum við einhverntíman á Gauk á stöng og fórum að tala um uppáhalds tónlistina okkar og komumst að því að við eigum mjög sameiginlegan bakgrunn í tónlist og fíluðum báðir Pink Floyd og Led Zeppelin og alla þessa gömlu tónlist. Og þar sem það er mjög dýrt að drekka á bar þá langaði okkur að stofna hljómsveit sem gæti stofnað reikning á Gauknum. Og þá stofnuðum við Dúndurfréttir, og þetta var svolítið þannig að næsti maður sem labbaði inn í salinn sem var þá Óli Hólm, sem hefur verið trommari í Ný dönsk og Todmobile og fl. Við bara kölluðum á hann, “hey viltu ekki vera með í hljómsveit og stofna reikning” og hann var bara til í það. Þannig að við stofnum sem sagt þessa hljómsveit eingöngu til að geta stofnað reikning og auðvitað líka til að spila uppáhaldslögin okkar. Svo fór þetta að vinda upp á sig og eitt skiptið þegar við vorum að spila á Gauk á stöng þá álpast þar inn blaðamaður frá Rolling Stone Magazine, og skrifar þessar fleygu setningar að við séum orðrétt “ Best Pink Floyd, Led Zeppelin coverband ever”. Sem okkur fannst bara frábært. Svo í kjölfarið á þessu höldum við okkar fyrstu stóru tónleika í Borgarleikhúsinu og flytjum Dark side of the moon í heild sinni. Það endaði með því að við spiluðum þetta fjórum sinnum fyrir fullu húsi. Þetta hélt áfram að vinda upp á sig og við héldum áfram að spila, spiluðum t.d. lög með Led Zeppelin og tókum líka The Wall með Pink Floyd og alltaf komu fleiri og fleiri að sjá okkur. Svo má segja að þetta hafi náð hámarki 2007 þegar við spiluðum The Wall með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir troðfullu húsi tvisvar sinnum í Laugardalshöllinni. Það var alveg rosalega gaman, og gaman að segja frá því að við erum nú að fara þann 16. febrúar til Færeyja að spila með Sinfóníuhljómsveit Færeyja og spila þar The Wall með Pink Floyd, sem verður ábyggilega mjög gaman

Fréttam: Ætla Dúndurfréttir að halda uppteknum hætti og halda áfram að spila þessi coverlög sem þið hafið verið að gera?

Matti: Ekkert endilega, við erum orðnir ansi heitir fyrir því að gera okkar eigin tónlist, og erum búnir að vera að safna í sarpinn fyrir það. Það eru ótrúlegir hlutir að koma frá ótrúlegum mönnum sem hafa ekkert endilega verið að semja neitt í gegnum tíðina, t.d. gítarleikarinn okkar Einar, og ég meira að segja.

Fréttam: Má þá búast við plötu frá Dúndurfréttum með frumsömdu efni á næstunni?

Matti: Jaa við skulum segja eftir svona ár. Svo erum við núna að vinna að DVD disk frá tónleikunum The Wall í Laugardalshöllinni, við vonum að við náum að klára það fyrir jól, sem verður þá fyrsta útgáfa Dúndurfrétta.

Fréttam: Eru þið komnir með frumsamið efni fyrir heila plötu?

Matti: Já við erum það, við erum bara alltaf að bæta við og taka úr og fínpússa þetta allt saman.

Fréttam: Ætlið þið þá að hætta að halda þessa tribute tónleika eins og þið hafið verið að gera við mjög góðar undirtektir?

Matti: Nei það þarf ekkert að vera, það getur vel verið að enginn nenni að hlusta á lögin okkar, en það er ákveðinn hópur sem hefur verið að fíla okkur og ég vona að þeir eigi eftir að fíla lögin okkar líka.

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir