Tveir foreldrar, eitt kynÞað þykir ekkert tiltökumál þegar karl og kona verða ástfangin, ákveða að verja lífinu saman og að eignast barn – fátt þykir reyndar sjálfsagðara. Ég skil ekki hvers vegna það truflar suma, þegar tveir karlmenn eða tvær konur taka þessa sömu ákvörðun.

Sem betur fer erum við, Íslendingar, langt á veg komnir í mannréttindabaráttunni. Samkynhneigðir njóta sífellt meiri réttinda og fordómar virðast stöðugt minnka. Þeir hafa lengi barist fyrir viðurkenningu í samfélaginu og meðal margra baráttumála er rétturinn til að eignast saman börn og að ala þau upp. Umræður þess efnis hafa verið miklar, en fordómar einnig. Ég hef oftar en einu sinni átt samræður við fólk sem er á móti því að samkynhneigðir geti eignast börn. Þetta fólk leggur gjarnan fram rökin: ,,Hugsaðu um börnin. Hugsaðu um eineltið sem þau yrðu fyrir“. Hvert er vandamálið? Er það að börnum sé strítt vegna foreldra sinna? Það er ekkert nýtt. Börnum er strítt fyrir að eiga alkóhólista fyrir föður, fyrir að eiga dökka móður og svo mætti lengi telja. Börn finna ástæður fyrir stríðni alls staðar; börnum er strítt fyrir húðlit, fyrir hárlit, fyrir að þurfa að nota gleraugu, fyrir föt og svona mætti endalaust telja! Það, að börnum sé strítt, er ekki ástæða til að stöðva hluti eða vera á móti þeim, heldur á að sjálfsögðu að fræða börn. Það á að kenna þeim umburðarlyndi og að fólk sé mismunandi og það á að fræða börn um afleiðingar eineltis. Þetta er vandamál sem alltaf verður til í heiminum, en foreldrar geta gert það sem í þeirra valdi stendur, með því að ala upp upplýst og umburðarlynd börn. 

Það er ómögulegt að halda því fram að samkynhneigðir séu verri foreldrar en gagnkynhneigðir, einfaldlega vegna þess að samkynhneigðir einstaklingar eru ekkert öðruvísi en gagnkynhneigðir. Það eru til hommar sem eru slæmir feður – en það eru líka til gagnkynhneigðir menn sem eru slæmir feður. 

Eva Björk Guðmundsdóttir, samkynhneigð móðir, kom fram í viðtali við bleikt.is og talaði um þetta efni. Þar sagði hún: „Þráin eftir fjölskyldu er hluti af mannlegu eðli og það eitt að vera samkynhneigður ætti aldrei að standa í vegi fyrir þeim vilja að eignast börn“. 

Það, að tveir einstaklingar eru ástfangnir og hamingjusamir leiðir mjög oft til þess að þeir vilji eignast börn og ég spyr; er til betra heimili fyrir börn að alast upp á, en ástríkt og hamingjuríkt? Hvort svo sem mömmurnar eru tvær, ein eða engin? Önnur rök sem ég hef heyrt er að náttúran bjóði bara ekki upp á að samkynhneigðir eignist börn og því á það að vera svoleiðis. En hvað með konur og karla sem eru ófrjó frá náttúrunnar hendi? Á þá ekki að taka fyrir allar frjósemisaðgerðir? Að sjálfsögðu er þetta útúrsnúningur - en það verður að segjast svo, að við erum orðin fjarlæg náttúrunni eins og hún var í upphafi og leiðir til að eignast börn verða sífellt fleiri, s.s. ættleiðingar, glasafrjóvganir og staðgöngumæðrun. 

Ég segi allavega fyrir mitt leyti, að ég get ekkert að því séð að hommar og lesbíur - svo ekki sé talað um transfólk, geti verið pabbar og mömmur í friði.


Katrín EiríksdóttirAthugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir