Uppáhaldsbarnið

Viðurkenndu það bara, þú hefur meira dálæti á einu barna þinna en hinum og þú ert að ljúga ef þú heldur öðru fram.

Þessu er allavega haldið fram í áhugverðri grein sem ég las fyrir nokkru og byggir á rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem skoðuð eru tengsl foreldra og barna. Því er haldið fram að um 65% mæðra og um 70% feðra ættu sér sitt uppáhaldsbarn. Jafnframt er talið að mæður myndi frekar sterkari tengsl við fyrstfædda son sinn og feður við yngstu dóttur sína. Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir þessu? Fyrri kannanir sýna að þessi tengsl myndist ef barnið er auðvelt í umgengni og einnig ef foreldrar geta deilt áhugamálum með barninu.

Athyglisvert var að sjá niðurstöður úr rannsókn þar sem foreldrar eineggja tvíbura gerðu upp á milli þeirra, og sýndu að sá tvíburi sem fékk minni athygli átti færri vini, var ekki eins félagslega virkur og þótti einnig haga sér verr en systkini sitt. Það barn sem fékk meiri kærleika og athygli, var sjálfsöruggt, félagslega virkt og stóð sig vel í skóla.

Þetta á nú ekki að koma á óvart og manni þykir nú skrýtið að það þurfi rannsóknir til að sýna fram á þetta. Börn eru ólík og maður myndar mismunandi tengsl við hvert og eitt þeirra. Sum eru ljúf og meðfærileg á meðan önnur eru þver og vilja fara sínar eigin leiðir. Mér finnst aðalatriðið vera að maður nái að kynnast börnunum sínum vel og læri að þekkja styrkleika þeirra sem og veikleika. Þau verða að fá að þroskast og dafna og finna að hvert og eitt þeirra skipti máli.

Jóna Kristín Guðmundsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir