Uppgjör á HM upplifuninni

Höfundur í Linköping. Mynd: Ari Hólm Ketilsson

Að fara á stórmót í handbolta er frábært! Maður verður algjörlega snarvitlaus á pöllunum og gleymir sér í gleðinni. Að vera stuðningsmaður Íslands er líklega með því skemmtilegra sem ég geri og það verður ekki aftur snúið núna – ég vil meira.

Ég er ekki viss um að mér hefði dottið í hug að fara ef vinkona mín hefði ekki stungið upp á því. Ég hafði einhvern veginn aldrei pælt í því að það væri hægt að fara á svona mót eins og ekkert væri, en auðvitað er það ekkert flóknara en hvað annað. Nú eftir þessa ferð er ég orðinn algjörlega háður því að sjá leikina á staðnum. Stemningin er svo allt allt önnur heldur en þegar maður horfir á leikina í sjónvarpinu. Maður hlakkar til allan daginn, klæðir sig upp, málar sig í framan og skellir víkingahjálmi á hausinn (sem virðist vera orðið alþjóðlegt fyrirbæri í handboltaheiminum... en jæja, hvað með það). Þegar á leikinn er komið gargar maður sig raddlausan og er annað hvort rosalega glaður í leikslok eða aðeins minna glaður, en hvernig sem fer er hver leikur ávallt frábær upplifun. Hvernig sem íslenska handboltalandsliðinu gekk var alltaf jafn mikið öskrað úr stúkunni og strákarnir kunnu alltaf jafn vel að meta stuðninginn og þökkuðu fyrir sig í leikslok. Þessu er ekki svona farið hjá t.d. sænska liðinu, sem gengu sneyptir af velli eftir tapið gegn Frökkum í undanúrslitunum án þess að þakka stuðningsmönnum sínum sem fylltu höllina. Við megum því vera þakklát fyrir viðhorf íslensku strákanna til þeirra sem leggja leið sína á völlinn.

Þótt seinni parturinn af HM hafi ekki gengið eins og best verður á kosið er 6. sætið alls ekki slæmur árangur þótt að innst inni voni maður alltaf að strákarnir nái gullinu. En nú er bara að snúa sér að næstu verkefnum. Forkeppnin fyrir EM í Serbíu í janúar 2012 og umspil fyrir Ólympíuleikana í London í júlí sama ár. Ég ætla á EM í Serbíu, en þú? 

Stefán Erlingsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir