Útlitsdýrkun eða sjálfsbjargarviðleitni


Nýr þáttur hóf göngu sína á Skjá einum s.l. miðvikudagskvöld. Þátturinn var umtalaður og nokkuð umdeildur áður en fyrsti þátturinn fór í loftið. Dagskrárgerðin var auglýst af Skjá einum í sumarlok undir nafninu ET og voru þá kynntar tvær umsjónarkonur, Ellý Ármannsdóttir og Þorbjörg Marinósdóttir. Þær komu fram í viðtölum í kjölfarið og í einu þeirra sagði Ellý: „Við munum fjalla um allt sem konur hafa áhuga á. snyrtivörum, útliti, líkamsrækt og svo má auðvitað ekki gleyma kynlífinu“.

Eitthvað fór það fyrir brjóstið á mörgum kynsystra þeirra að þessi atriði væru talin helstu áhugamál kvenna, svo mjög að mikil umræða fór fram á afþreyingarmiðlum, bloggsíðum og spjallþáttum að ógleymdir Fésbókinni, þar sem önnur hvor stöðuuppfærsla fjallaði í einhverja daga um þáttinn væntanlega. Sitt sýndist hverjum um það hvort upptalningin hefði átt að sýna nokkur af áhugamálum kvenna eða hvort þær væru þarna að gefa í skyn að konur almennt hefðu engin önnur áhugamál en þessi.

Svo fór að Ellý Ármanns sagði sig frá verkefninu -  sagði í viðtali að hún treysti sér ekki til að standa í stríði við kynsystur sínar. Tobba Marinós hélt hins vegar ótrauð áfram, breytti nafni þáttarins sem nú ber heitið Tobba og var sá fyrsti sem sagt sýndur þann 21. september s.l.  Miðað við umræðuna í sumarlok, hefur ótrúlega lítið farið fyrir umræðu um þáttinn eftir að hann loks komst í útsendingu. Reyndar breyttist viðmót Fésbókar að morgni næsta dags, svo nánast allar almennar umræður þar og á bloggum hafa drukknað í óánægjuröddum og aðstoðarbeiðnum vegna þess, en samt.....

Vopnuð styrkjandi kaffibolla og einlægum ásetningi um fordómaleysi og opinn huga, settist ég fyrir framan sjónvarpsskjáinn í gærkveldi til að horfa á endursýningu fyrsta þáttar og athuga um hvað þetta snerist. Enda þótt ég hafi hálfdottað yfir tíðindalitlum þættinum og það þrátt fyrir rótsterkt kaffið, var tvennt sem vakti athygli mína. 

Annað var valið á fyrsta viðmælandanum sem mér fannst eftirtektar- og svolítið aðdáunarvert. Tobba opnaði nefnilega nýja þáttinn með viðtali við Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra þar sem umræðuefnið var til að byrja með hugsanlegt kennsluefni fyrir nemendur grunnskóla varðandi meðfarir peninga og innkaup - Veit hreinlega hvort mér fannst meira til um hugvitsemi Tobbu eða kjark Katrínar!

Hvað um það – Hitt var könnun sem Tobba kynnti í þættinum og hafði sjálf framkvæmt. Hún lék konu sem vandræðast á bíl með loftlausu dekki í vegkanti Reykjanesbrautar á háannatíma. Fyrst var hún hálftíma á gráum fólksbíl, íklædd svörtum joggingfötum, með hárið í þreyttum hnút, andlitið ómálað en annan hálftíma var hún á hárauðum sportbíl, íklædd glæsilegri kápu, aflitað hárið slegið og sléttað, risastór sólgleraugu huldu hálft andlitið, meðan varaliturinn og 12 cm skórnir voru minnst eins rauðir og bíllinn.
Tilgangurinn var að sjá hvort fleiri myndu hjálpa konu sem væri „snyrtileg til fara“ og jú, sú varð raunin. Tveir höfðu boðið hversdagslegu konunni aðstoð meðan ekki hafði náðst að telja alla þá sem vildu bjarga þeirri vel-til-höfðu. Út frá þessu varð rannsóknarniðurstaða Tobbu skýr: Útlitsdýrkunin er orðin slík að það er auðveldara fyrir konu að aðstoð ef hún er „snyrtileg“ til fara.... Jahá.

Það var eitthvað í bakhöfðinu á mér sem bærði á sér - rannsóknartækni, aðferðarfræði, framkvæmd kannana og utanaðkomandi áhrif - og látum þá reyndar alveg vera hvort allir telji það aðkallandi vanda fyrir unga, fullfríska mannsekju að vera með sprungið dekk um hábjartan dag í þéttbýli. 

En getur verið að það hafi haft áhrif á niðurstöðu könnunarinnar að hversdagslega Tobba sat buguð og hljóðlát, ýmist inni í bílnum eða á kantsteininum og beið eftir aðstoð, meðan vel-til-hafða Tobba sveiflaðist um í vegkantinum, óð út á götuna og veifaði ákveðið til bílstjóranna? Getur hreinlega verið að niðurstaða þessarar könnunar sýni jafnvel enn frekar að það borgi sig að minna á sig og biðja um aðstoð en þess er þörf  – að við þurfum kannski að gera vart við okkur til að nærumhverfið bregðist við þegar við erum í aðstæðum sem við teljum okkur ekki ráða við - sýna svolitla sjálfsbjargarviðleitni....? Það er nú það.

Þórný Barðadóttir.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir