Vaðlaheiðagöng eða fólksflótti?

Mynd fengin að láni frá arnfirdingur.is
Ég er utanbæjarmanneskja hérna á Akureyri og bara búin að búa hérna í rúmlega hálft ár. Eitt af því fyrsta sem ég heyrði talað um hérna, voru svokölluð Vaðlaheiðagöng. Fyrst hugsaði ég, já það er örugglega mjög jákvætt og gott fyrir Akureyringa og nærsveitamenn. Þegar ég svo ók yfir Víkurskarðið fóru að renna á mig tvær grímur, þar sem að ég gat nú ekki séð neitt athugavert við þennan veg, malbikaður og bara nokkuð góður. Þá fór fólk að segja mér hvað það væri nú vont að keyra þarna að vetri til í hálku og snjó, og já ég get alveg verið sammála því, en það er alls staðar vont að keyra í hálku og snjó. Ástæða þess að ég rita þessi orð, er sú að ég er hreinræktaður Vestfirðingur, nánar tiltekið af sunnanverðum Vestfjörðum. Ég er alin upp við slæma vegi og þegar ég skrifa slæma vegi, þá meina ég slæma vegi. Hef ekki ennþá fundið álíka vegi hér fyrir norðan. Langir kaflar á leiðinni vestur eru malarvegir og háar heiðar, sem erfitt er að aka yfir vetrartímann. Á tímabili í haust stóð til að skerða snjómokstur og fækka ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Þegar það stóð til, sá fólk fram á það að geta einungis farið ferða sinna þrjá daga í viku. Enn og aftur þegar þessi umræða var í gangi, þá hugsaði ég um Vaðlaheiðagöngin, hvort að það væri virkilega þörf á þeim? Eins og ástandið er í dag er auðvitað búið að fresta öllum framkvæmdum í vegagerð eða gangnagerð.

Ég geri mér grein fyrir því að það búa færri fyrir vestan, en samgöngur eru fólkinu þar alveg jafn mikilvægar og öðrum. Síðustu ár hefur verið mikil fólksfækkun á Vestfjörðum og get ég ekki að því að gert að hugsa með mér, hvort að það stafi af því, að á ýmsum sviðum eins og í vegagerð eru Vestfirðingar mörgum árum ef ekki áratugum á eftir öðrum landshlutum. Ég hugsa á svipuðum nótum þegar ég ek yfir Öxnadalsheiðina niður í Skagafjörð og horfi á "gamla veginn" sem er malbikaður, þá átta ég mig á því hversu langt á eftir Vestfirðingar eru.

Ekki misskilja þessi skrif mín á þann hátt að ég sé á móti Vaðlaheiðagöngum eða öðrum vegaúrbótum, því það er ég alls ekki, heldur finnst mér bara vera þörf á forgangsröðun í vegaframkvæmdum. Og þá meina ég að það má ekki bara gleyma sumum landshlutum, þó að það búi fáir þar miðað við aðra staði!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir