Vannærð Victoria, risavaxnar mjaðmir Beyonce og grennri Jessica

Beyonce Knowles
Ég veit ekki hvort vekur meira furðu mína, fyrirsagnir og myndir af holdafari stjarnanna í Hollywood, eða þá áráttu mína að lesa þessar “fréttir” og skoða myndirnar af einskærri forvitni.

 Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað það er við fyrirsagnir á borð við “Vannærð Victoria”, Grennri Jessica”  og “Borað í nefið á spáni” sem fær mann til að lesa áfram, og ég veit að ég er ekki sú eina sem lætur ginnast af slíkum fyrirsögnum. Ég tók sérstaklega eftir fyrirsögninni “Risavaxnar mjaðmir Beyonce-myndir” og þar voru myndir af hinni íðilfögru Beyonce Knowles í flottum kjól sem sýndi afar kvenlegan og fallegan vöxt hennar, vissulega sáust mjaðmirnar á henni, en síðast þegar ég vissi hefur það þótt fallegra að líta út eins og kvenmaður en ekki eins og 15 ára unglingspiltur. Almenningur er orðin svo vanur því að sjá hið óeðlilega holdafar sem er viðloðandi stjörnurnar í Hollywood að um leið og einhver bætir á sig nokkrum kílóum og er þar með komin í flokk “eðlilegra” kvenmanna sem eru ekki 10 kílóum undir kjörþyngd, verður uppi fótur og fit og fréttir eru sagðar af því að hin og þessi hafi bætt við sig. Nærmyndir eru teknar til að ná hliðarspikinu og appelsínuhúðinni og þessum myndum miskunnarlaust smellt inná vefinn og framan á forsíður slúðurblaðanna. Ekki er einungis sett útá það þegar einhver bætir á sig örfáum kílóum, heldur er líka einblínt á það að sumar stjörnurnar séu of mjóar.

 Það er því greinilega ekki tekið út með sældinni að vera undir stöðugu eftirliti slúðurblaðanna og almennings. Það sem er þó meira áhyggju efni er hversu brenglað viðhorf manns sjálfs er til þess hvað er eðlilegt og hvað ekki. Þegar ég las fréttina um að Jessica Simpson hefði grennst, skoðaði ég að sjálfsögðu meðfylgjandi myndir, þar voru “fyrir” og “eftir” myndir. Þegar ég skoðaði myndirnar undir “Jessica í þyngri kantinum” var mér allri lokið. Þar voru myndir af stelpu sem ég gat ekki betur séð en að væri hin eðlilegasta í líkamsvexti, það sem átti að vera Jessica í þyngri kantinum var bara Jessica með eðlilegt vaxtarlag, eða vaxtarlag sem margar konur myndu vafalaust kjósa fram yfir sitt eigið. Svo þegar ég ætlaði að fara að skoða þessar fyrirsagnir í tengslum við þennan pistil voru komnar fleiri fyrirsagnir af greyið Jessicu, eins og t. “Jessica þyngist og þyngist”, jú það var hægt að sjá það að hún hafði bætt á sig nokkrum kílóum, en það að það skuli vekja heimsathygli er mér óskiljanlegt.

 Það er að sjálfsögðu ekkert að því að stunda líkamsrækt og borða hollan mat, en það er algjörlega vonlaust að vera að keppa við þær staðalímyndir sem við sjáum í glansblöðunum, sem hafa einkakokka og er á sérfæði daginn út og inn og hanga á hlaupabrettinu í 4 tíma á dag. Það hefur engin nútíma kona í hinum hversdagslega heimi tíma, peninga né orku í það. Þess vegna hvet ég alla, þar á meðal sjálfa mig, að vera sátt við það sem maður hefur og einblína ekki á það sem maður hefur ekki.

Hér má sjá umrædda frétt um Jessicu og meðfylgjandi myndir:

http://visir.is/article/20090202/LIFID01/374399998

http://visir.is/article/20090310/LIFID01/845980904

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir