Veislan búin

Hraðinn í nútímanum

Á sama hausti og hinni kapítalísku veislu lýkur hefur lögbinding foreldrafélaga í framhaldsskólum orðið að veruleika.  Er það í raun eðlilegt framhald af því að sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18.  

Orðið “kvíði” hefur komið upp í huga margra undanfarna daga og vikur í kjölfar frétta um efnahagshrun á Íslandi og, í raun, í öllum heiminum.  Ég verð að segja að á meðan veislunni stóð ól ég nokkurn kvíða í brjósti vegna þess að ég gerði mér grein fyrir því að svona gætu hlutirnir ekki gengið til lengdar. Fólk færðist smám saman, sitt í hverja áttina, og allt snerist um að eignast hluti og hafa það gott. Því verð ég að segja að ég finn til nokkurs feginleika að veislunni sé lokið og við getum farið að lifa lífinu.  Við höfum tækifæri til þess nú að uppfylla hinar raunverulegu þarfir, en verðum að sleppa gerviþörfunum, sem í raun hafa ekki gert líf okkar innihaldsríkara, auk þess sem þær hafa gert ungu kynslóðina óraunsæja á lífið.

Hraðinn sem fylgir því að uppfylla hinar kapítalísku kröfur og þar með næra græðgina hefur beint sjónum margra frá því sem mestu máli skiptir, samveran við börnin og unga fólkið, sú stærsta ábyrgð sem við tökumst á hendur, að koma næstu kynslóð til manns.  Birtingarmynd gerviþarfanna er augljós.  Til að geta nýtt tímann sem best hefur sú leið verið farin að setja börnin fyrir framan sjónvarp og tölvur með mishollt nesti eins og skyndibita og sælgæti auk þess sem öruggara hefur verið talið að láta þau hafa síma, svo hægt sé að vita hvernig þeim reiðir af.  Við höfum ekki séð við því að gerviþarfirnar kalla á alls kyns heilbrigðisvandamál eins og offitu og fíkn af ýmsu tagi. Tölvufíkn og símafíkn eru raunveruleg fyrirbæri.

Í gegnum heimssöguna má sjá að á krepputímum hafa listir og menning blómstrað og vona ég að sú verði raunin nú.  Við sem erum komin á miðjan aldur nú höfum lifað miklar breytingar á lífsháttum og viðhorfum og höfum tækifæri til að líta til baka, til þeirra tíma þegar hlutirnir voru ekki eins sjálfgefnir.  Við ættum núna að leggja okkur fram um að koma því til skila til yngri kynslóða, þeirrar kynslóðar sem hefur haft “allt til alls”, nema samveruna við eldra fólkið. 

Vettvangur foreldrafélaga er kjörinn til að taka höndum saman og standa vörð um unga fólkið. Það er staðreynd að þótt börnin okkar séu búin að ná sjálfræðisaldri þá halda þau áfram að vera börnin okkar, þurfa umhyggju og eftirfylgni.  Þeim finnst það í raun dýrmætt þegar við fylgjumst með því af áhuga sem þau eru að gera.

                                                              Hlín Bolladóttir
 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir