Viðtal við Halldór Sigurgeirsson formann Freyvangsleikhússins

Halldór Sigurgeirsson
Blaðamanni landpóstsins tókst að fá Halldór Sigurgeirsson, formann Freyvangsleikhússins, í viðtal þrátt fyrir mikið annríki hans. En nú standa æfingar á leikritinu Þið munið hann Jörund sem hæst og í mörg horn að líta hjá formanninum.

Halldór er ættaður frá Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit og starfar sem járnsmiður á Akureyri.

Nú ert þú búsettur og starfandi á Akureyri, hvernig stendur á þvi að þú ert formaður áhugaleikfélags í Eyjafjarðarsveit?

Dóri: Þetta er mín heimasveit sem ég hef aldrei slitið tengslum við og öll mín félagsmál og tómstundir hafa verið í sveitinni.

Hvert var þitt fyrsta verkefni með leikfélaginu?

Dóri: Ég kom eitthvað að smíði leikmyndar Margt býr í þokunni sem var sýnt í Freyvangi árið 1977 og árið eftir lék ég lítið hlutverk í Gengið á reka. Í ellefu ár þar á eftir var ég eingöngu að keyra lýsingar hjá leikfélaginu. Svo tók ég mér hvíld í allnokkur ár, til ársins 1995 en var þá beðinn að koma og hjálpa til við að ramma inn myndir og hef verið starfandi með leikfélaginu á fullum krafti síðan þá.

Hefur þú verið mikið í stjórnarstörfum hjá leikfélaginu?

Dóri: Já, bæði á fyrra tímabilinu í einhver ár, og var svo kosinn inn í stjórn 2004 og hef starfað sem formaður sl. þrjú ár.

Hefur þú tölu á hversu mörgum sýningum þú hefur tekið þátt í að koma upp?

Dóri: Þær eru orðnar 20 talsins.

Nú standa yfir æfingar á leikritinu Þið munið hann Jörund hvernig gengur það?

Dóri: Já, það gengur bara vel og mikill kraftur og gleði í fólki. Það eru sennilega fáar sýningar jafn skemmtilegar í uppsetningu eins og þessi. Ekki síst vegna þess að við finnum alveg fyrir því hversu mikill áhugi er fyrir þessari sýningu.

Nú er Freyvangsleikhúsið með öflugri áhugaleikhúsum landsins, kanntu einhverja skýringu á því?

Dóri: Við eigum öflugugan hóp félagsmanna og þótt að við missum fólk „á mölina“ þá flytja nú flestir úr sveitinni til Akureyrar og það er svo stutt fram í Freyvang að fólk heldur áfram að starfa með okkur. Einnig er talsvert um að nýtt fólk flytjist í sveitina og við fögnum alltaf nýjum félögum. Við erum félag án landamæra og öllum opið, höfum stórt markaðssvæði. Við njótum góðs aðbúnaðar, sem sífellt er verið að bæta, í Freyvangi og njótum velvilja sveitastjórnarmanna og allra í sveitinni.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?

Dóri: Ég vil koma kveðju til leikdeildar UMF Reykdæla í Borgarfirði, sem eru einnig að setja upp Þið munið hann Jörund þessa dagana. Það verður gaman að sjá þá sýningu. Ég vil einnig minna á heimasíðu félagsins: http://www.freyvangur.net og þakka öllum fyrir sem koma að sýningunni á einn eða annað hátt og velvilja allra í okkar garð, þetta er ómetanlegt.

Landpósturinn þakkaði Dóra fyrir spjallið og þar með rauk hann af stað í sveitina til að smíða leikmynd.

Mynd: Elísabet K.Friðriksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir