Vikuplanið

mynd: google.com
Mánudagur svo föstudagur og svo helgin góða. Er vikan ekki annars örugglega þannig ? Allavega upplifi ég vikurnar þannig núna.


Alla daga finnst mér ég vera í kapphlaupi við tímann. Aldrei nógur tími til að gera allt sem manni langar að koma að yfir vikuna. Planið fyrir komandi viku, sem yfirleitt er gert á sunnudögum, lítur yfirleitt mjög vel út allt vel skipulagt og dagskráin fjölbreytt. Dagskráin velskipulagða gerir ráð fyrir ýmsu eins og t.d skólanum , börnunum og þeirra tómstundum, líkamsrækt fyrir mig, hollustbakstri , fjölskyldutíma og heimsóknum svo eitthvað sé nefnt.

En svo hefst martröðin á mánudagsmorgni klukkan hálf sjö. Fyrsta verk er að koma öllum á fætur og út úr húsi á réttum tíma og trúið mér þetta er ekki svona eins og í amerískum bíómyndum þar sem fjölskyldan situr saman og borðar morgunmat aldeilis ekki. Þó að mikill tími fari í að skipuleggja kvöldinu áður er alltaf eitthvað sem er týnt eða gleymdist að gera. Þetta hefst þó allt á endanum, ja allavega svona yfirleitt. Svo er að keyra yngri börnin í leikskóla en þau eru á sitt hvorum leikskólanum og eru þeir í sitt hvoru hverfinu. Þeir gætu eiginlega ekki verið fjær hvor öðrum nema við færum að sækja leikskóla í annað sveitafélag. Svo að kapphlaupið við tímann er mikið svona allavega ef ég á að mæta í skólann kl 8:10.


 Eftir leikskóla og skóla er svo oft á tíðum alræmdar Bónusferðir og svo að koma börnum og vörum heim og já upp á þriðju hæð. Þetta vill oft taka á og sigurvíma þegar þriðja pallinum er náð, já það er að segja ef börnin og innkaupapokarnir hafa allir ratað upp á pallinn annars er að fara aðra ferð niður til að sækja það sem hefur orðið eftir. Þegar inn er komið hefur maður stimplað sig inn á heimilsvaktina og þvottur, þrif, heimalærdómur þess elsta og veita þeim yngri alla þá athygli sem þau þurfa tekur við. Eftir kvöldmat er svo tiltekt og öllum komið í rúmið og tími til kominn að stimpla sig aftur inn á skólavaktina sem tekur svo svona yfirleitt enda milli ellefu og tólf.


 Áður en maður veit af er kominn föstudagur og komin tími til að lýta yfir vikuna. Jú ég fór fjórum sinnum í ræktina, náði að fara í Bónus tvisvar, alltaf eitthvað sem gleymist, börnum, heimili og þvotti sinnt. Engar heimsóknir, samverutími fjölskyldunnar var í þokkalegum hlaupafarvegi milli fjögur og átta og baksturinn flyst yfir á sunnudag ef tími vinnst til þá.


 Svo er komin helgi og nýtt kapphlaup tekur við. Fjölskyldan loksins sameinuð eftir vikuna og hvað þá ? Ýmislegt sem kemur til greina en uppúr stendur að heimsækja ömmur og afa og sinna aðeins þeim sem standa manni næst. kannski koma smá þrifum inn en eftir sem áður þá virðast helgarnar ekki duga heldur til alls sem löngun er til að gera með fjölskyldunni.


Svo er runninn upp mánudagur enn og aftur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir