Vildu fremja morð eftir að hafa horft á sömu bíómyndina

Þann 27. apríl á síðasta ári gekk fimmtán ára drengur út frá heimili sínu Hafnarfirði með eitt í huga. Hann ætlaði sér að myrða einhvern.

Hann gekk niður að fjöru vopnaður hnífi og með húfu dregna niður fyrir andlitið. Á húfuna hafði hann klippt tvö göt fyrir augun svo hún leit út eins og gríma. Í fjörunni sá hann tvær 9 ára stúlkur að leik. Hann gekk rakleitt að þeim, tók aðra stúlkuna og hélt henni fastri á meðan hann skar hana í hálsinn. Að því loknu sleppti hann stúlkunni, henti hnífnum frá sér og gekk á brott. Vegfarandi sem átti leið um sá til hans og náði að halda honum þar til lögregla kom á vettvang. Ætlunarverk drengsins tókst sem betur fer ekki en stúlkan hlaut marga skurði á hálsinn og þurfti að sauma 34 spor. Að sögn læknis hefði ekki mátt miklu muna að verr færi.

Hálfu ári áður, eða þann 3. október 2012, var hinn 17 ára Jake Evans staddur heima hjá sér í smábænum Aledo í Texas. Hann náði í skammbyssu sem hann hafði áður stolið frá afa sínum, gekk fram á gang og kallaði á 15 ára gamla systur sína. Hann sagði henni að mamma hennar þyrfti að tala við hana. Þegar hún kemur fram skýtur Jake hana með þeim afleiðingum að hún lést. Síðan snýr hann sér þá að móður sinni og skýtur hana einnig til bana. Að því loknu hringir hann í lögregluna.

Báðir þessir drengir voru mjög ungir þegar þeir frömdu þennan verknað en það er annað nokkuð óhugnanlegt atriði sem þessir atburðir eiga sameiginlegt. Drengirnir höfðu báðir verið að horfa á sömu bíómyndina þegar þeir tóku þá ákvörðun að vilja myrða einhvern. Eftir að þeir voru handteknir tjáðu þeir báðir lögreglu að þeir hefðu verið að horfa á hryllingsmyndina Halloween og að þeir hefðu gert þetta vegna áhrifa af henni.

Umrædd mynd leikstjórans Rob Zombie kom út árið 2007 og er endurgerð Halloween sem kom út árið 1978. Fjallar myndin í stuttu máli um tíu ára strák sem er sendur á geðsjúkrahús eftir að hafa myrt skólabróður sinn og nokkra fjölskyldumeðlimi. Fimmtán árum síðar strýkur hann og fer þá á æskuheimili sitt, nær þar í grímuna sína og hnífinn sem hann hafði falið fimmtán árum áður og heldur svo áfram að myrða fólk.

Jake sagði meðal annars að honum hefði fundist það merkilegt hversu auðvelt það var fyrir strákinn í myndinni að fremja morð og til hversu lítillar iðrunar hann fann eftir verknaðinn. Sagðist Jake hafa hugsað með sér eftir að hafa horft á myndina að þetta gæti alveg verið jafn auðvelt fyrir hann.

Jake bíður enn dóms í Bandaríkjunum en vegna ungs aldurs og misræmis í alríkislögum og lögum Texas hafa menn deilt um það hvort dæma eigi hann sem ungmenni eða fullorðinn. Ef hann verður dæmdur eftir lögum Texas á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn eða dauðadóm. Fái hann dóm sem ungmenni fær hann lífstíðarfangelsi með möguleika á reynslulausn einhverntíman á lífsleiðinni.

Síðastliðinn mánudag var hinn 15 ára íslenski drengur sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir tilraun til manndráps. Í dómsorði segir að hann skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir