Vilko og Sindrafréttir í samstarfi

Mynd: Sindrafréttir.is

Vilko er gamalgróið fyrirtæki sem að flestir landsmenn kannast við. Það var stofnað i Kópavogi árið 1969 en var svo keypt af Kaupfélagi Húnvetninga og starfsemin var flutt á Blönduós. Núna er fyrirtækið orðið að hlutafélagi og er í eigu Amundarkinnar ehf, O. Johnson & Kaaber ehf, sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu og nokkurra starfsmanna og einstaklinga.

Vilko er þekktast fyrir Vilko vöfflurnar og Vilko kakósúpuna, en samkvæmt Nilsen tölum frá árinu 2012 er kakósúpan í fjórða sæti yfir mest seldu súpur á Íslandi fyrir það ár. Samkvæmt sömu tölum eru Vilko vöfflurnar í sjöunda sæti yfir seldar bökunarvörur, en hafa má í huga að bökunarsúkkulaði tilheyrir sama flokki. „Við erum mjög montnir af árangri Vilko vaffla,“ segir Kári Kárason framkvæmdarstjóri Vilko. Hann segir jafnframt að nýjustu tölur bendi til þess að enn séu vöfflurnar að sækja á. En vöfflurnar og kakósúpan eru þó ekki þær vörur sem að hafa verið lengst á markaðnum. Fyrstu vörur Vilko eru ávaxtagrautarnir, ávaxtasúpurnar og sætsúpan.

Kári hefur verið framkvæmdastjóri Vilkó í tæp fjögur ár eða frá 1. janúar 2010. Hjá Vilko starfa sex starfsmenn. „Starfsaldurinn en hár og það er óska staða hvers framkvæmdarstjóra að svo sé, allt gæðastaf er auðveldara og það er hægt að byggja á góðum grunni,“ segir Kári.

Árið 2007 keypti Vilko fyrirtækið Tindafell ásamt vörumerkinu Prima. Framleiðsla og pökkun á prima kryddum hófst á Blönduósi síðar það ár og síðan þá hefur ekki verið litið um öxl. „Það hefur gengið alveg frábærlega og samkvæmt áður nefndum Nilsen tölum erum við stærstir á markaðnum með 13,9 % af heildar sölu á íslensum neytenda kryddmarkaði“. Samkvæmt Kára er sífelld þróunarvinna og leit að nýjungum hluti af starfseminni og hann sagði einnig að það væri von á nýrri línu frá Prima. „Því fylgir mikið stress en samt er búið að vera hrikalega gaman að vera í þessari vinnu, meira segi ég ekki fyrr en varan er komin á markað“. En Prima er einmitt þekkt fyrir að koma með nýjungar og sýnar það sig kannski best í Húnagullinu. „Hugmyndin var að koma með krydd sem myndi vera úr héraði og fyrir vörur úr héraði, semsagt lambakjöt“. Kári sagði að það hefði tekið þó nokkurn tíma að finna hina réttu kryddblöndu því að ákveðin skilyrði voru sett í upphafi. „Kryddið þyrfti að vera gott til þess að nudda á kjötið og láta það standa í ísskáp en venjuleg krydd sem innihalda salt rýra kjötið af vökva. Þá var ákveðið að nota olíuhúðað salt sem ekki myndi hafa þau áhrif á kjötið fyrr en hitastig kjötsins er komið yfir 50°C. Það tókst og við fundum rétta bragðið og viljum meina að Húnagull sé með betri kryddblöndum sem fyrirfinnast á landinu“, segir Kári stoltur.

Öll stór fyrirtæki auglýsa sig vel og veita fjárhagslega styrki hingað og þangað og Vilko er þar engin undantekning. Í sumar hóf Vilko samstarf við Sindrafréttir sem að er lítill íþróttafréttamiðill frá Höfn í Hornafirði. Það samstarf fólst einfaldlega í því að Vilko styrkti Sindrafréttir sem að auglýstu Vilko í staðin. Kári segir að þetta samstarf hafi gengið framar vonum og hafi meira að segja orðið valdur af því að Nettó á Höfn tók í sölu Vilko vöfflur. Auglýsingar Sindrafrétta voru í léttari kantinum og segir Kári að það hafi vakið mikla lukku. „Sindrafréttir voru með Vilko Challenge Vikunnar, sem að voru einfaldlega áskoranir á milli strákanna í meistaraflokki Sindra. Þetta varð svo vinsælt að fólkið á Blönduósi var meira að segja farið að bíða eftir miðvikudeginum til að sjá uppátæki Sindrafrétta. Það er alveg á hreinu að við munum halda áfram samstarfi við Sindrafréttir“, segir Kári.

Í sumar kom Kári fram í sjónvarpsviðtali hjá mbl.is þar sem að hann auglýsti eftir gömlu góðu Vilko auglýsingunni. Þessa auglýsingu ættu flestir að kannast við því að hún var mjög eftirminnileg. En auglýsingin hefur ekki enn fundist þrátt fyrir mikla leit. „Því miður hefur hún ekki fundist því að okkur langar til að setja hana af stað í upprunalegri mynd. En við vonum enn að hún eigi eftir að koma í leitirnar“, segir Kári Kárason að lokum.

Það má þó til gamans geta að Sindrafréttir bjuggu til auglýsingu fyrir Kára þegar þeir heyrðu af því að upprunalega auglýsingin væri týnd. Auglýsingu sindrafrétta má sjá hér að neðan.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir