Viltu kippa með nokkrum 4016 elskan

Ekki rauðu jólaeplin nr. 4016 - Mynd Ingibjörg Snorra
Ég er í staðarlotu í Háskólanum á Akureyri og alveg ótrúlega gaman að hitta loksins fólkið sem maður hefur hlustað á undanfarna mánuði í fyrirlestrum, augliti til auglitis. Maður lærir svo margt í háskóla, miklu meira en bara bóknám og verklagsreglur og eitthvað um gamla karla, við lærum að vinna saman, vinna með hvort öðru og  þessir yndislegu kennarar, sem eru svo natnir og þolinmóðir við okkur, eru dásemdin ein. Maður kynnist líka nýju fólki á öllum aldri, alls staðar að af landinu og alltaf gaman að sjá andlitin á bak við nöfnin, sem maður hefur verið að vinna verkefni með síðustu vikur. 

Maður lærir líka svo fjölmargt annað, ekki kannski alveg beint tengt náminu, en samt hefði ég ekki lært það ef ég hefði ekki verið í námi, það er fjarnámi á Akureyri. Ég á skemmtilegar frænkur á Akureyri, gisti ég í lotum hjá einni, en stundum hjá dóttir hennar hér í bæ, hin dóttirin býr í Reykjavík með sína fjölskyldu. Í gær var „sú að sunnan“ í heimsókn og  ætlaði hún að skreppa út í búð eftir meira grænmeti með kvöldmatnum.

Mamma hennar kallar á eftir henni „Gríptu fyrir mig nokkur fjörutíu sextán elskan“. Dóttirin snéri sér við og sagði „hvað sagðirðu mamma?“ Æjjj.. mig langar í nokkur rauð 4016 svaraði móðirin og gerði ráð fyrir að allir vissu hvað hún ætti við. Dóttirin taldi að eitthvað hefði misheyrst og sagði „mamma ég er að fara í matvörubúð, ekki A-4 !“ „ég veit sagði mamman, mig langaði bara í nokkur „rauð 4016“  voða hissa á svip, endaði hún á að segja „þú mátt alveg sleppa því, ef þetta er eitthvað vesen, þau eru bara svo góð í salat“.

Dóttirin horfði forviða á móður sína og skildi ekkert hvað hún var að fara. Móðirin sá svipinn á henni, rétti henni rautt epli og sagði „ég er bara að tala um rauð epli elskan“. Dóttirin hafði aldrei nokkurn tíma heyrt talað um rauð epli sem númer og ég ekki heldur, þaðan af síður vissum við að þau væru númeruð og eitthvað væri að marka þessi númer. Fannst okkur þetta frekar fyndið og fengum loks þær skýringar að rautt epli væri ekki bara rautt epli, heldur skiptu númerin á þeim máli og lang bestu rauðu eplin væru númer 4016. Við frænkurnar ákváðum að sjálfsögðu að framvegis myndum við bara tala um rauð epli sem númer og vera vel vakandi í epladeildum, nú kaupi ég ekki bara rauð epli, heldur „4016“ takk!

Rautt nr.4168

Ingibjörg Snorra

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir