Völd spilla

Assad og fjölskylda á góðri stund

Nú hefur ríkt borgarastyrjöld í Sýrlandi síðan í mars 2011 og ekki sér fyrir endan á henni. Í byrjun voru þetta mótmæli svipuð og höfðu átt sér stað í Egyptalandi og Túnis þar sem almenningur fékk nóg og fór út á götur og mótmælti áralangri kúgun og spillingu stjórnvalda. Hefur þessi mótmælabylgja verið nefnd Arabíska vorið, en stjórnvöld í Sýrlandi með Bashar-al Assad forseta í fararbroddi tóku strax mjög hart á aðgerðasinnum eins og farið verður nánar út í hér fyrir neðan.

Enginn gat gert sér í hugarlund hvað átti eftir að gerast. Ríkisstjórnin beitti fullu hervaldi á aðgerðasinna, tók þá höndum, myrtu, nauðguðu og pyntuðu og það sama á við fjölskyldur þeirra. Limlestum líkunum var hent út í vegarkant. Alþjóð hefur horft upp á hrikalegar fréttir fluttar frá átökunum þar sem uppreisnamenn og her Assad forseta berjast hatrammlega og hlífa engum. Í byrjun átakanna létust 1400 almennir borgarar á nokkrum mínútum eftir efnavopnaárás hersins. Eftir hana var boðað til fundar í Öryggisráði sameinuðiþjóðana og hefur það komið saman þrisvar sinnum vegna ástandsins, án árangurs.

Aðildarríki öryggisráðsins eru fimmtán talsins. Fimm þeirra, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland eiga fastafulltrúa í ráðinu og hafa öll neitunarvald í málum sem ráðið tekur fyrir. Bandaríkjamenn og Frakkar voru tilbúnir að beita hernaðarráðstöfunum og reyna að stöðva blóðúthellingarnar. En Rússar og Kínverjar beittu neitunarvaldi svo ekkert hefur orðið af því. Afstaða þeirra snérist aðallega um pólitík , þeim fannst ennþá vera möguleiki á samningaviðræðum,vildu ekki beita hernaðarvaldi strax. Samningaviðræður hafa ekki gengið eftir og Assad forseti gefur ekkert eftir þrátt fyrir mikin þrýsting fá alþjóðasamfélaginu.

Bashar-al Assad forseti Sýrland tók við af föður sínum, Hafez al-Assad, þegar hann lést árið 2000. Sýrland var og er einræðisríki. Talið er að Sýrland hafi verið gangandi tímasprengja en líkleg ástæða fyrir því að bylting breyttist í stríð á svona stuttum tíma er að þarna komu saman æstur og reiður almenningur og einræðisherra sem svífst einskis til að þagga niður í þegnum sínum.

Assad er giftur Asma al-Assad, sem áður hét Emma Akhras. Hún er tölvunarfræðingur að mennt og kemur frá vel settri fjölskyldu í Bretlandi. Þau  eiga saman þrjú börn. Assad sjálfur er læknir að mennt. Hann var búsettur í London en flutti heim til Sýrlands árið 2000 þegar faðir hans lést, til að taka við af honum. Assad og frú lifa í vellystingum  á meðan þjóðinni er slátrað. Það er reyndar búið að setja þau í farbann en forsetafrúin má ferðast til Bretlands því hún er með ríkisborgararétt þar.

Þegar Bashar al-Assad tók við af föður sínum Hafez al-Assad, eftir langa og stranga einræðistíð hans, fór landið að opnast og þegnarnir voru vongóðir um að betri tíð væri í vændum. Til að byrja var það raunin. Forsetafrúin var dýrkuð og dáð, sinnti mannúðarmálum og reyndi að bæta hag sýrlensku þjóðarinnar. En sagt er að völd spilli og það er líklega sagan hér. Um leið og stríðið braust út hvarf Asma af sjónarsviðinu og hagur barna í Sýrlandi versnaði snarlega. Nú húkir hún í neðanjarðarbyrgi á meðan þjóðinni er slátrað af her eiginmannsins.

Mikill straumur flóttafólks liggur frá Sýrlandi. á hverjum degi og leita ótal börn og fjölskyldur þeirra skjóls í nágrannaríkjunum. Helmingur flóttafólksins eru börn. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er með mikinn viðbúnað á svæðinu, enda eykst neyðin stöðugt.Alls hafa um 1,5 milljón manna flúið frá Sýrlandi og leitað hælis í nágrannalöndunum. Helstu fórnalömb þessa hræðilega stríðs eru börn hvort sem þau búa í flóttamannabúðum eða ennþá í Sýrlandi.

Allar friðarumleitanir hafa runnið út í sandinn og átökin eru blóðug. Samkvæmt samantekt og mati frá Sameinuðu þjóðunum, seint á árinu 2012, höfðu að minnsta kosti 70.000 manns látið lífið. Tölur upp að 120.000 hafa verið nefndar, en eru óstaðfestar. Í ágúst 2013 tilkynnti Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðuþjóðana, að 100.000 væru látnir í stríðinu. Erfitt er að henda reiður á hve margir hafa látist því mikið af fólki hefur horfið sporlaust. Einnig er erfitt að fá fréttir af ástandinu í landinu því stjórnvöld halda upplýsingum frá fjölmiðlum, eða réttara sagt, gefa ekki réttar upplýsingar af ástandinu. Nýjustu tölur herma að um 136.000 manns hafa verið myrti í Sýrlandi síðan uppreisnin hófst.

En hvað skal taka til bragð? Enn einu sinni horfir alþjóðasamfélagið upp á þjóðarmorð og gerir ekkert í því. Hvað liggur þar að baki? Hagsmunir, pólitík eða spilling? Hvað sem veldur er algjör pattstaða í þessu stríði. Eina sem getur hjálpað er einhverskonar  pólitískt samkomulag en það þarf mikið að gerast svo af því verði.

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir