Vor á skandinavísku

Kuldalegt grill. Mynd: flickr.com /Lissa
Undanfarið hefur „Facebookið“ mitt verið uppfullt af stöðufærslum vina og kunningja sem búsettir eru á Norðurlöndunum, þar sem þau dásama vorið á allan mögulegan máta, meðan verktaki sveitarfélagsins hér heima, hefur hamast við að moka snjóinn úr litlu götunni minni og bætt í skaflinn fyrir utan eldhúsgluggann. Þetta gæti hæglegar orðið verulega íþyngjandi blanda ef  ekki væri fyrir minningar sem ég glotti yfir frá fyrsta vorinu mínu á dönsku námsárunum.

Þannig var að eftir vetur, sem auðvitað reyndist lítið annað en endalaust ískalt og rakt haust, hafði þarna sérst til sólar, líklega eina tvo-þrjá daga í röð. Þá var skotið á skyndifundi námsmanna á Görðunum sem ég bjó á og ákvörðun tekin. Nú skyldi halda vorhátið - útiveislu með grilli, varðeldi og öllu tilheyrandi og það strax. Ég spurði ósköp varlega hvort þetta væri nú kannski ekki svolítið snemmt, það væri þrátt fyrir allt bara marsbyrjun ennþá, en það var umsvifalaust afgreitt sem svartsýnisraus manneskju sem ekki þekkti til aðstæðna enda alin upp nánast á Norðurpólnum.

Í þessu landi félagssamstöðunnar hvarflaði ekki annað að mér en að taka þátt í því sem gert var á Görðunum en þetta lagðis samt eitthvað skringilega í mig. Mér leist ekki meira en svo á að elda og borða utandyra að kvöldlagi, á sama árstíma og ég sem barn þurfti iðulega að halda upp á afmælið mitt innanhúss vegna stórhríðar, ekki svo mörgum breiddargráðum norðar á jarðkringlunni. Ég bar þetta undir íslenskan vin minn sem hafði búið lengur í landinu en ég. Hann bað mig blessaða að fara bara í nóg af fötum en Dönunum yrði ekki rokkað, þeir einfaldlega bitu svona lagað í sig. Svo sagði hann mér frá fyrsta vorinu sínu í landinu.

Þá hafði sólin einmitt látið sjá sig einhverja daga og þá skyldi umsvifalaust pakka niður kæfandi vetrarklæðnaði og fylla alla skápa af sumarfötum - vorið væri komið. Glaður í bragði með hvað þetta væri nú allt annað líf en hinn staðfasti íslenski vetur, gróf hann upp stuttbuxurnar sínar að morgni dags og fór valhoppandi af gleði út í hjólageymslu. Eitthvað hafði honum nú kólnað á leiðinni því hann var svolítið á báðum áttum með hvað skyldi gera þegar sambýlinga bar að. Þeir sögðu hlýna fljótt, þetta væri bara morgunkul enn sem komið væri. Javel. Minn maður lagði í hann á hjólinu sínu, klæddur í nánast ekki neitt. Hann sagði að þaðan yrði endurminningin reyndar svolítið í móðu því honum hefði orðið svo kalt, en hann taldi að líklega hefði þurft eina fjóra menn til að mylja hann af hjólinu við skólann – þeir voru nota bene allir í gallabuxum utanyfir stuttbuxurnar.

Hvað grillveisluna okkar varðar,  þá var hún haldin með glans. Við náðum reyndar ekki að kveikja í sprekinu sem við fundum því það var of frosið svo varðeldurinn var blásinn af. Blöðrurnar sprungu allar jafnóðum í frostinu og svo þurftum við reyndar líka að færa okkur inn í óupphitaða hjólageymsluna af því það snjóaði svolítið á okkur og ja, eiginlega vorum við næstum dauð úr kulda.

En í dag getur þessi minning glatt mig þannig að öfundin hverfur og ég brosi bara hlýlega að enn einni vor- og sólarstöðufærslunni sem dettur inn á fréttaveitu „Facebook“ frá einhverju Norðurlandanna.

Þórný Barðadóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir