Yst - spennandi tímar sem við erum að upplifa

Yst fyrir framan málverk sitt Þjóðarblómið
Ingunn Stefanía Svavarsdóttir er listakonan Yst. Ingunn hefur gegnt ýmsum störfum í gegnum tíðina. Hún var til að mynda fyrsti heilsugæslusálfræðingurinn á landinu og var lengi vel sveitarstjóri í Öxarfirði, en hefur hún nú algjörlega helgað sig listinni og hefur það verið hennar vettvangur síðastliðin 14 ár en hún lauk mastersnámi í fagurlist árið 2008.

Ingunn hefur búið víða meðal annars á Akureyri, í Reykjavík, Danmörku, Svíþjóð, Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum en er nú búsett í Öxarfirði þar sem hún er einnig með vinnustofu og sýningaraðstöðu í Bragganum sem er amerískur hermannabraggi. Bragginn var byggður árið 1964 sem útigöngufjárhús og hlaða og gegndi því hlutverki allt til ársins 2000 þegar hann var allur tekinn í gegn og endurbyggður. Bragginn blasir litríkur við frá veginum þegar keyrt er til Kópaskers. Að sögn Ingunnar eru það algjör forréttindi að búa í dreifbýli fjarri ys og þys borgarlífsins. “Líf listakonu í dreifbýli er yndislegt, því næðið er algjört og nálægðin við náttúruna ómetanleg en mér finnst best að vinna verkin mín í þögninni”. Ingunn segir það þó vera staðreynd að það séu minni möguleikar fyrir listafólk sem búsett er úti á landi að koma sér á framfæri og fjölmiðlaumfjöllun sé minni því fjölmiðlar hafi ekki nægt fjármagn til að fylgjast með listsköpun á landsbyggðinni og þeirri miklu grósku sem þar á sér  stað. “Möguleikarnir eru minni að koma sér á framfæri úti á landi, það eitt er víst. Ég hef til dæmis fengið þau svör frá Víðsjá að RÚV hafi bara enga peninga til að fylgjast með listsköpun á landsbyggðinni og meira að segja hefur Listasafnið á Akureyri verið sett út í kuldann vegna kostnaðar. Sama má segja um listaumfjöllun Moggans, því miður. Athygli er ást og umfjöllun er athygli, svo þetta er strembið”.

Tengslamyndun mikilvæg

Ingunn segir að það sé alveg bráðnauðsynlegt að vera í góðum tengslum við annað listafólk til að skapa saman verk af og til og styðja við sköpun hvers annars. Það sé bæði hvetjandi og gefandi og vekur oft upp eitthvað alveg nýtt sem annars hefði aldrei orðið til. Hún er í Myndlistarfélagi Akureyrar og hefur stofnað til félagsskapar við aðra listamenn í námi sínu bæði hér á landi og í Bretlandi en segir þó fjarlægðina gera málin flóknari og hún eigi erfiðara um vik með samskipti. En þá getur verið gott að styðjast við þær nýju samskiptaleiðir sem tæknin hefur upp á að bjóða. “Svo er ég náttúrulega á Fésinu í tengslum við fjölda listamanna, en ég vildi gjarnan sjá SÍM, sem ég er líka félagi í, vinna meira í að stefna listafólki beinlínis saman með tengslamyndun og sýningarhald í huga. Menningarfulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaganna gegna hér hins vegar lykilhlutverki og standa sig vel í þessu.”

Hugmyndirnar koma víða að

Hún segir hugmyndir sínar koma innan frá og skjóti upp kollinum við hin ýmsu tækifæri og að hún eigi fullt í fangi með að hrinda þeim öllum í framkvæmd. “Ég verð fyrir áhrifum af mjög mörgu, bæði í mínu eigin lífi og í fjölskyldunni eins og til dæmis barnsfæðing, fráfall nákomins, sterk tónlistarupplifun eða önnur listupplifun. Þá verð ég einnig fyrir áhrifum af nær umhverfinu úti í náttúrunni, formum, litum, hreyfingu, sterkum veðrabrigðum og síðast en ekki síst af þjóðfélagsumræðunni og því umróti öllu saman. Þetta eru mjög spennandi tímar sem við erum að upplifa akkúrat núna.” Ingunn hefur haft í  nógu að snúast upp á síðkastið en hún er núna að undirbúa tvær sýningar sem haldnar verða í sumar.

Vildi svara kröfunni um aukið gegnsæi

Nýlega hlaut Yst styrk frá Menningarráði Eyþings fyrir verkið Til hennar en það er samstarfsverkefni hennar og skáldsins Jónasar Friðriks Guðnasonar á Raufarhöfn. Verkið fjallar um konuna frá vöggu til grafar í ljóðum og teikningum. Hugmyndina fékk hún í haust þegar dóttir hennar eignaðist dóttur en þaðan kemur uppsprettan. Það hafði líka áhrif að þjóðin okkar fékk stórkostlegt kynningar tækifæri með heiðurssætinu á bókamessunni í Frankfurt ásamt því að Reykjavík var valin ein af fimm helstu bókmenntaborgum veraldar. “Mig hefur lengi langað að gera bókverk og við Jónas Friðrik höfum þrisvar unnið áður saman, svo hann gekkst inn á að prófa að semja atómljóð í bókverkið fyrir mína beiðni. Mér fannst upplagt að teikna í bókverkið, því ég hef verið í teikningagírnum upp á síðkastið og teikna ég eingöngu frá hjartanu ósjálfrátt í nokkurs konar flæði. Eins vildi ég hafa verkið gegnsætt til að svara kröfu íslensku þjóðarinnar nú um gegnsæi.”

Styrkveitingar mikilvægar

Að sögn Ingunnar hefur það mikla þýðingu fyrir listamenn að hafa aðgengi að styrkveitingum. “Listsköpun krefst einurðar og einmanalegs lífs af viðkomandi á stórum köflum og styrkur til listsköpunar er mikil uppörvun og hvatning og dregur jafnframt úr beinum kostnaði listafólks sem vinnur launalaust og er upp á aðra komið fjárhagslega. Það er mikil fyrirhöfn, kostnaður og tími sem fer í að sýna fjarri heimabyggð og ef ekki fæst styrkur til þess, þá verður að sækja allan kostnaðinn til makans, útvega lán eða bara sleppa tækifærinu!”

 

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir