Áhrif og Eftirsjá

Bræðurnir Arnar og Rúnar Halldórssynir.

Miðvikudagskvöldið 13. október árið 1993 var bein útsending í Ríkissjónvarpinu. Meirihluti þjóðarinnar beið í ofvæni eftir því að Hermann Gunnarsson, Hemmi Gunn, birtist í allri sinni dýrð með þátt sinn Á tali hjá Hemma Gunn. Ung fjölskylda í Vestursíðunni á Akureyri var þar engin undantekning. Þessari fjölskyldu tilheyrði ég. Það eru efalaust margir sem eiga einhverjar sögur af þáttunum hans Hemma en þessi þáttur átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á mitt líf, ótrúlegt en satt. Í þættinum komu meðal annars fram leikmenn úr körfuknattleiksliði Harlem Globetrotters. Þeir léku listir sínar af sinni alkunnu snilld og heillaðist ungi maðurinn, ég, gríðarlega. Í raun voru þetta mín fyrstu kynni af íþróttinni sem ég hef bæði iðkað og þjálfað nánast allar götur síðan.

Síðar í þættinum komu tveir ungir drengir, búsettir í Noregi, fram íklæddir rauðum silkiskyrtum og hvítum buxum, vopnaðir kassagíturum. Þessir drengir heita Arnar og Rúnar, fyrir þá sem ekki muna er um að ræða bræður sem komu fram undir nafninu The Boys. Ekki var aðdáunin minni en þegar körfuknattleiksstjörnurnar amerísku léku listir sínar skömmu áður. Á þáttinn, sem að sjálfsögðu var tekinn upp á forláta VHS tæki, horfði ég svo aftur og aftur og aftur. Áhrifin voru síður minni því jólin sama ár fékk ég í hendurnar minn fyrsta gítar og hef ég ósjaldan gripið í gítar síðan og hefur lagavalið oftast nær verið í anda þeirra bræðra sem léku lög sem kallast ,,sixties tónlist" (vísun í áratuginn sem þau komu út).

Ekki leið á löngu þar til bræðurnir koma aftur til landsins og blása til tónleika. Mér stóð til boða að fara á þessa tónleika í fylgd eldri systur minnar. Á þessum tíma var faðir minn að vinna fyrir sunnan og buðu amma og afi mér með sér suður að heimsækja hann. Að sjálfsögðu varð ég spenntur en sú spenna breyttist fljótlega í mikla tilvistarkreppu, eitthvað sem fjögurra ára drengur vissi ekki hvað var. Færi ég í ferðina myndi ég missa af tónleikum átrúnaðargoðanna. Ég, að vel ígrunduðu máli, ákvað að heimsækja pabba. Eins mikið og ég elska föður minn, þá er þessi ákvörðun sennilega sú sem ég sé mest eftir að hafa tekið á ævinni. Í þau 21 ár sem liðin eru frá þessari erfiðu ákvörðun hef ég ekki tölu á því hversu mörgum klukkutímum ég hef varið með honum föður mínum en aldrei hef ég farið og mun aldrei fara á tónleika með The Boys.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir