Alltaf með jafnréttisgleraugun á nefinu

Jafnréttisþing var haldið í vikunni undir yfirskriftinni Kynlegar myndir – jafnrétti á opinberum vettvangi. Sigrún Stefánsdóttir, sviðsforseti hug- og félagsvísindasviðs við Háskólann á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu jafnréttis á fjölmiðlum. Í umsögn dómnefndar segir:

„Sigrún hefur átt farsælan feril í íslenskum fjölmiðlum, fyrst sem blaðamaður og ritstjóri og síðar sem fréttamaður, dagskrárgerðarkona og sem yfirmaður í útvarpi og í sjónvarpi. Sigrún var fyrst Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í fjölmiðla- og boðskiptafræðum og jafnhliða störfum í fjölmiðlum hefur Sigrún lengi fengist við kennslu í blaða- og fréttamennsku. Í kennslu sinni hefur Sigrún ávallt lagt áherslu á að opna augu nemenda sinna fyrir ójöfnu hlutskipti kynjanna í fjölmiðlum. Auk fjölda þátta fyrir útvarp og sjónvarp hefur Sigrún lagt stund á margvísleg ritstörf þar sem baráttumál kvenna fyrir jafnrétti eru til umfjöllunar. Síðast sendi hún frá sér, í samstarfi við Eddu Jónsdóttur, bókina Frú ráðherra sem byggir á viðtölum við 20 íslenskar konur sem gegnt hafa embætti ráðherra.“

 

„Ég fékk viðurkenningu fyrir mitt starf sem einstaklingur. Það voru veitt þrenn verðlaun, fyrir miðil, fyrir ákveðið verkefni og til einstaklings, en ég hef alltaf verið með jafnréttisgleraugun á nefinu,“ segir Sigrún.


Mér fannst þeir þreyttir á tuðinu

Sigrún segir að þessi viðurkenning hafi mikla þýðingu fyrir sig. „Stundum finnst mér ég hafa verið að vinna með vindmyllur á móti mér,“ segir hún,  sérstaklega þegar hún var frétta- og blaðamaður. „Mér fannst strákarnir oft þreyttir á þessu tuði,“ en Sigrún segir að það hafi ekki verið fyrr en hún gerði stóra könnun á hlutfalli frétta þar sem konur voru viðmælendur og karlar að kollegarnir fóru að hlusta.  „Ég skoðaði hvorki meira né minna en 20 ár, frá byrjun sjónvarpsins 1966 þangað til 1988,“ en þetta var fyrsta könnunin af þessum toga.

Niðurstöður þessarar könnunar sýndu fram á að fyrstu árin í sögu Sjónvarpsins var hlutur kvenna núll og síðasta árið var hlutur kvenna kominn upp í 13%. „Ég framreiknaði þetta og fann út að með þessum hraða sem var á þessum fyrstu 20 árum yrðum við komin með jafnvægi milli kvenna og karla hvað sýnileika varðar árið 2030.“

 

Konur 20-30% viðmælenda síðan 2001

Tölurnar sem komu fram á jafnréttisþinginu eru þó ekki í takti við útreikninga Sigrúnar. „Eftir að tölurnar sem voru kynntar á þinginu þá er mér hreinlega til efs um að við verðum komin á þann stað árið 2030,“ segir hún, „ég held það verði ekki fyrr en 2050. Við erum búin að vera rokka á bilinu milli 20-30% lengi en það er eins og það sé eitthvað þak þarna,“ bætir hún við.

Sigrún segir að í stóru könnuninni sem hún gerði hafi hún líka tekið efnisflokkana til rannsóknar og það hafi verið tveir flokkar þar sem konur höfðu vinninginn sem viðmælendur í fjölmiðlum, í jafnréttismálum og ummönnunarmálum. „Í sjávarútvegi fann ég eitt viðtal á 20 árum þar sem talað var við konu,“ segir hún og ítrekar það að við þurfum að ná betri árangri. 

Fjölmiðlar í vörn

Sigrúnu þótti það mjög umhugsunarvert að á jafnréttisþinginu hafi aðeins verið 17% karlar meðal þátttakenda. „Á meðan þetta er kvennavandamál þá gerist ekkert,“  og tekur fram að þetta þurfi að vera mál sem bæði kynin þurfa vinna saman að. „Það er kannski næsta stóra verkefni að vekja áhuga karla á þessu og gera þá virka.“

En hvernig er hægt að breyta þessum gömlu hefðum innan fjölmiðla?
 „Það fara allir fjölmiðlar í vörn þegar þetta mál er rætt. Fjölmiðlarnir verða að taka þetta alvarlega og ekki vera með endalausar afsakanir um að það sé erfitt að fá konur í viðtöl,“ segir hún.

Hún bætir því við að fjölmiðillinn Hringbraut geri upp hverja viku út frá kynjunum. Einnig nefnir hún að N4 séu mjög meðvituð um þetta, og konurnar þar séu sterkar. Hinir þurfa að taka sig á, ekki gleyma þessum tölum eftir 3 vikur. „Karlarnir sem stjórna hafa sitt karllæga net og konur hafa sitt kvenlæga net. Þessi net þurfa að vinna saman.“

Sigrún segir að á ráðstefnunni hafi verið kynnt til leiks mjög einföld leið til þess að halda utan um kynjahlutföllin í fjölmiðlum en það var að búa til dagatal á heimasíðu fjölmiðilsins sem sýnir fyrir hverja viku hversu margar konur og karlar voru í viðtölum.

„Mér finnst að hver þáttur ætti að vera með svona uppgjör - hvað voru margar konur og karlar,“ en hún segir það vera ljóst að það sé aldrei hægt að vera jöfn upp á daginn, en þegar vikan er gerð upp þá sérðu yfirlitið.

Konur halda að verið sé að klekkja á þeim

„Ég hef verið með námskeið í skólanum og hef tekið fólk sem vill koma til mín. Við erum í 2 tíma að lækna konur sem hafa fóbíu fyrir því að koma í viðtal,“ segir Sigrún og nefnir það að hún hafi verið með nokkrar konur úr heilbrigðisvísindasviði í síðustu viku og þær voru allar klárar í slaginn eftir þessa æfingu.

„Mér finnst þær hafa ranga hugmyndafræði gagnvart fjölmiðlum,“ og bætir því við að konur haldi oft að ef þær fari í viðtal sé verið að klekkja á þeim. Þær upplifa sig ekki sem sérfræðinginn heldur sem þolanda. „Ef þú upplifir þig sem þolanda í viðtali verður þú aldrei góður í viðtali,“ segir Sigrún en hún ítrekar það við þær konur sem koma á námskeið til hennar að fréttamaður leitar til þeirra vegna þess að þær eru sérfræðingarnir. Fréttamaðurinn vill búa til góða frétt með góðu viðtali.

Sigrún segir þetta vera einn af þeim þáttum sem er að trufla konur. „Svo vilja þær alltaf vera 180% og alltaf vera svo flottar,“ og segir að þær vilji gjarnan fá mikinn tíma en þá er augnablikið farið, fréttin er í dag.

„Konur eru uppteknar af því að þær líti ekki nógu vel út í dag, þær eru varkárari. Þær eiga að vera fullkomnar,“ segir Sigrún og tekur það fram að þær átti sig oft ekki á rétti sínum. „Ef þú ferð í blaðaviðtal þá áttu réttinn til að fá textann og skoða og tryggja það að hann sé réttur,“ segir hún en hún segir það algengt að þær leiti ekki hjálpar hjá fréttamanninum. „Þær verða að upplifa þetta sem samvinnuverkefni en ekki að einhver sé að stinga sverði upp að munninum að þeim.“   

Kynferðisleg umfjöllun um ráðherra

Sigrún er nýbúin að skrifa bók með Eddu Jónsdóttur sem heitir Frú Ráðherra. Það eru viðtöl við 20 konur sem hafa verið ráðherrar. Sigrún segir að  þær hafi upplifað fjölmiðla sem mjög aðgangsharða og leiðinlega við þær. „Fjölmiðlarnir hafa verið með fókusinn meira á útlit og stundum með kynferðislega umfjöllun: „Umhverfisráðherra mætti í rauðum skóm“ eitthvað sem yrði aldrei fjallað um karla.

Sigrún segir að í bókinni tali Katrín Jakobsdóttir um að hvernig strákarnir séu alltaf að kasta fram einhverjum yfirlýsingum til að komast í fjölmiðla. „Auðvitað er það partur af því að komast áfram í pólitík að vera sýnilegur,“ segir Sigrún.

Fjölmiðlarnir aðlagast nýju samfélagi

Þegar Sigrún var að byrja í fréttamennsku á Mogganum segir hún að þá hafi konur í blaðamennsku verið algjör minnihlutahópur. „Maður hafði engar fyrirmyndir,“ og segir hún að þá hafi karlarnir kennt henni hvernig hún ætti að vinna og við hvaða karla hún ætti að taka viðtal.

Heimurinn er annar í dag en nú eru mun fleiri konur í fjölmiðlastétt sem er jákvætt. Sigrún upplifir það að fréttamatið hafi víkkað, en fréttamat íslenskra fjölmiðla varð til í upphafi síðustu aldar. „Þar voru allt saman karlar,“ og hún minnist þess að þegar hún kom með hugmyndir um að fjalla um leikskólamál eða þörfina fyrir þróun fleiri leikskóla hafi strákarnir blásið á það – þeir voru í pólitík, sjávarútvegi og samgöngumálum.   

Sigrún segir að viðhorfið og fréttamatið hafi verið að breytast og aðlaga sig að nýju samfélagi. „En betur má en duga skal og ef við horfum á efnið sem er fyrsta frétt í sjónvarpi eða hvað er á forsíðu þá eru það gjarnan karllægu fréttirnar,“ og segir hún að þar séum við eftirbátar t.d granna okkar Dana.  „Þeir eru með allt önnur mál sem fyrstu fréttir. Þeir eru með mýkri nálgun á fréttir.“

Sigrún bendir á bók sem heitir Uppbyggileg blaðamennska. Þar er verið að endurskoða fréttamatið og gera fréttir lausnamiðaðar. „Ég held að með það að markmiði að gera morgundaginn betri en gærdaginn og hugsa í lausnum en ekki vandamálum auðveldi konum það að koma fram í fréttum. Þetta er blaðamennskan sem ég hef tröllatrú á að geti gert gæfumuninn,“  segir hún að lokum.

 

 

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir