Fabúleringar um fóbíur

mynd af google.com

Í morgun vann ég fullnaðarsigur. Ég horfðist í augu við óttann og ég hafði betur. Mér tókst að fara í blóðprufu. Allt frá því að mér var tilkynnt síðasta miðvikudag að ég ætti að mæta í blóðprufu klukkan 08:20 á mánudagsmorgun (í dag) hef ég átt erfitt með að hugsa um nokkuð annað en einmitt þessa blóðprufu. Það var þá sem ég áttaði mig á því að þetta er í raun fóbía samkvæmt skilgreiningunni (óstjórnlegur og órökstuddur ótti sem hamlar daglegu lífi) en ekki bara það að ég væri smeykur við sprautur eða nálar. Ég hugsa að rökrétt framhald þessa stórsigurs sé auðvitað að ég skelli mér í fallhlífarstökk og vinni bug á lofthræðslunni.

Líkt og flesta aðra morgna heimsótti ég ömmu og afa og drakk með þeim morgunkaffið. Ég kom fagnandi inn um dyrnar, ekki ósvipað og þegar ég sagði fyrst til um hvað klukkan væri fyrir allmörgum árum, svo mikil var sigurgleðin. Þau hlóu nú bara að mér og þegar ég sagði þeim að þetta væri í raun mikill sigur og raunveruleg fóbía sem ég væri að kljást við heyrðist í þeim gamla: ,,Þetta er ekkert fóbía! Á íslensku heitir þetta bara ræfildómur“. Ég kaus að hundsa þessi ummæli, hélt mínu striki og kláraði kaffið!


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir