Flýtilyklar
Loksins! Draghreðjandi
Söguleg tíðindi úr heimi pönksins: Út er komin platan Draghreðjandi með húsvísku pönksveitinni Roð, en hljómsveitin hefur um langt skeið haft költ status í huga fjölmargra unnenda pönksins. Fyrir þá sem ekki þekkja til var hljómsveitin Roð áberandi í pönksenunni undir lok síðustu aldar. Sveitina skipuðu þau Júlía Sigurðardóttir söngur, Guðmundur Svafarsson bassi og söngur, Óskar Valgarðsson og Ragnar „rokkari“ Hermannsson gítar og Gunnar Illugi Sigurðsson trommur.
En hvað kom til að þessi fjársjóður kemur út núna eftir allan þennan tíma?
„Ég tók eftir því að allskonar hljómsveitir sem sumar hverjar eru löngu hættar eins og t.d. Þeyr, Lost og Baraflokkurinn eru að gefa út gamla efnið sitt á netinu hjá Synthadelia records. Mundi eftir þessum Roð upptökum, hafði samband við þá og kýldum þetta í gegn. Eigum einhver 22 lög upptekin og hér koma út 11 svo það er slatti eftir. Efast samt um að einhver nenni að koma þessu út a vínyl eða geisladisk á næstunni,“ Sagði Guðmundur Svafarsson bassaleikari hljómsveitarinnar.
Roð tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar árið 1997, þá aðeins nokkurra mánaða gömul. Hljómsveitin komst áfram á úrslitakvöldið en þar við sat; dómaraskandall vildu einhverjir meina. Það var hljómsveitin Soðin fiðla sem bar sigur úr bítum þetta árið. Þess má geta að tvær húsvískar hljómsveitir voru í úrslitum Músíktilrauna þetta árið. Auk Roðs keppti pönk hljómsveitin Innvortis um hylli dómnefndar og var útnefnd athyglisverðasta hljómsveitin og er það kannski til marks um gróskuna í húsvísku pönksenunni á þessum tíma að tvær hljómsveitir frá svo litlu bæjarfélagi hafi náð svo langt í keppninni.
Annar af gítarleikurum sveitarinnar segist telja að sveitin hafi lagt upp laupana síðla árs 1999 vegna útlandaflandurs bassaleikarans, en viðurkennir þó að þessi tími sé sveipaður undarlega þykkri þoku gleymskunnar.
Árið 2000, gaf Örkumlútgáfan út safnplötuna Pönkið er dautt. Roð á tvö lög á þessari ágætu plötu, Formæka og Fallbyssufóður.
Efni plötunnar Draghreðjandi var tekið upp undir stjórn Haraldar Ringsted í Stúdíó Ofheyrn á árunum 1997 og 1998. Platan kemur að minnsta kosti fyrst um sinn aðeins út rafrænt. Það er Red River Records (Synthadelia Records) sem sér um dreifingu. Hægt er að streyma plötunni ókeypis með því að smella á hlekkinn hér að neðan eða kaupa niðurhal í bestu mögulegu gæðum fyrir litlar 11. evrur (u.þ.b. 1500 kr.) eða hærri upphæð að eigin vali. Umslagið hannaði Dísa Litla.
http://rodiceland.bandcamp.com/album/draghre-jandi
Nú hljóta aðdáendur Roðs að bíða spenntir eftir því að plötunni verði fylgt eftir með „kombakki“
„Kombakk veit ég ekkert um en það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar“ segir Guðmundur að lokum.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir