Flýtilyklar
Magnaður myndmenntatími
Ég hef áður sett hér inn sögu af sjálfum mér, reyndar nokkrar en ein þeirra fjallaði um afrek mín í saumum. Saumadæmið var ekki einsdæmi og virðist vera að fínhreyfingar hafi ekki verið uppá tíu á þessum árum.
Þannig var að eitt sinn í myndmennt, þegar ég var í 7. bekk að mig minnir, áttum við að teikna manneskju. Ég var búinn að gera nokkrar tilraunir, minnir mig allavega, sem fóru beinustu leið í tunnuna. Umhverfissjónarmiðin voru ekki eins ríkjandi á þessum árum og því fékk ég nóg af pappír.
Ég var ekki auðveldasti nemandinn til að eiga við þarna ,,back in the days“ og þá helst í mannlegum samskiptum og skoðanaskiptum. Fyrir mér var þetta bara my way or the highway. Eftir ítrekaðar tilraunir til að teikna eitthvað sem líktist mannveru gafst ég einfaldlega upp og fór aftur í grunninn.
Ég byrjaði að söngla ,,punktur, punktur, komma, strik“ og teikna Óla gamla prik. Kennarinn virðist ekki hafa áttað sig á þessu því hann gerði engar athugasemdir á meðan að verknaðinum stóð. Hins vegar var ekki sömu sögu að segja þegar ég tjáði honum að meistaraverkið væri klárt.
Ekki veit ég hvort téðum kennara fannst teikningin ljót eða Óli helst til hárlaus en hann sagði frekar argur en samt með stóískri ró: Viltu gjöra svo vel að koma þér út og það strax.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir