Útúrdópað afreksfólk

Ólympíufáninn

Þegar hugsað er til spillingar í íþróttaheiminum er Rússland eitt af fyrstu löndunum sem koma upp í hugann. Englendingar voru til að mynda ævareiðir þegar Rússland var valið fram yfir þá til að halda HM í knattspyrnu árið 2018. Englendingar höfðu lagt mikið púður í að fá keppnina en enduðu með því að fá einungis 2 atkvæði af 22 mögulegum þegar framkvæmdastjórn Fifa kaus um staðsetningu keppninnar. Að auki voru vetrarólympíuleikarnir á síðasta ári haldnir í Rússlandi þrátt fyrir mikla hörku gegn samkynhneigð ásamt öðrum mannréttindabrotum sem virðast vera hluti af þjóðarsál Rússa. 

Nú hefur svo komið í ljós að ekki einungis var íþróttafólk í Rússlandi hvatt til þess að neyta ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn heldur var beinlínis ætlast til þess. Oleg Popov, einn landsliðsþjálfara Rússa lét hafa eftir sér að ef að íþróttamaður neytti ekki ólöglegra lyfja var hann settur úr liðinu og nýr fenginn í stað hans í liðið. Þegar blóðsýni úr íþróttafólkinu sýndu svo ólögleg efni beittu bæði íþróttamálaráðherra Rússlands, Vitaly Mutko og rússneska lyfjaeftirlitið sér fyrir því að það væri hylmt yfir með íþróttafólkinu og átt var við sýnin þannig að þau kæmu ekki út sem ólögleg. Þá var rannsóknarstofan sem að sýnin voru prófuð á hleruð og yfirmaður rannsóknarstofunnar Grigory Rodchenkov var skyldaður til vikulegra funda með öryggisfulltrúa á vegum ríkisstjórnarinnar þar sem hann þurfti að gefa skýrslur um það sem var í gangi hjá rannsóknarstofunni. Þessi rannsóknarstofa átti að vera óháð og ekki undir neinum nema sjálfum sér komin. Grigory Rodchenkov var svo langt frá því að vera sakleysið uppmálað því upp komst að hann tók þátt í að kúga fé út úr íþróttafólki í skiptum fyrir að sýnin þeirra væru "hrein". Þannig var hann aðalmaðurinn á bakvið eyðileggingu 1.417 sýna sem fallið höfðu á lyfjaprófunum.

Í kjölfar heimildamyndar sem þýska sjónvarpsstöðin ARD sýndi árið 2014 um þetta lyfjamisferli fór í gang rannsókn hjá sjálfstæðri nefnd sem leidd var af Dick Pound en hann hefur áratugareynslu af lyfjaeftirliti. Þessi nefnd hefur nú skilað áliti sínu og leggur til að rússneskt frjálsíþróttafólk verði bannað frá öllum alþjóðlegum keppnum þangað til að rússneska frjálsíþróttasambandið hefur tekið til í þessum málum hjá sér. 

Þetta gæti til dæmis orðið til þess að rússneskt frjálsíþróttafólk fái ekki þátttökurétt á ólympíuleikunum sem haldnir verða á næsta ári. 

Lokaákvörðun um þetta verður tekin þegar stjórn alþjóðalyfjaeftirlitsins hittist í Monaco seinna í þessum mánuði. 

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir