Flýtilyklar
"Oft þannig með stór áföll að þau geta bæði sameinað og sundrað"
Huld Hafliðadóttir er yfir meðallagi bjartsýn manneskja, „kannski svolítil Pollýanna“ eins og hún segir sjálf. Hún gekk í það heilaga í sumar með sambýlismanni sínum til fjölda ára,- Jóhanni Gunnari Sigurðssyni. Þau eru bæði frá Húsavík og eiga saman tvö börn; Kristján Gunnar 6 ára og Margréti Sif sem verður 8 ára í desember. Þó að Huld sé í grunnin raunsæ og réttsýn þá á hún stundum erfitt með að halda sér á jörðinni.
Ég fæ mikið af hugmyndum sem mér finnst gaman að spegúlera í og hrinda í framkvæmd. Mér á líklega ekki eftir að endast ævin til að framkvæma allt það sem kemur upp í kollinn, en fyrst og fremst er þetta kannski merki um auðugt ímyndunarafl og yfirdrifna bjartsýni. Mér finnst í raun allt vera mögulegt. Ég er mjög lagin við að finna ljósu fletina, hvort sem er í fólki eða aðstæðum. Ætli mætti ekki segja að ég hafi almennt mjög gaman af lífinu og öllum litbrigðum þess.
Á einhvern ljúfsáran hátt hefur allt sem ég hef gert; gott eða misgáfulegt, átt sinn þátt í að móta þá manneskju sem ég er í dag. Ég hef gert ótal mistök, en sem betur fer hef ég líka fengið kjark til að horfast í augu við þau og læra af þeim. Segja frá þeim og leiðrétta það sem hægt er. Ég hef líka fengið kjark til að fyrirgefa bæði sjálfri mér og öðrum. Það finnst mér algjörlega magnað. Eftirsjá er eitthvað sem ég vil helst ekki burðast með eða eyða tíma í. Þess vegna reyni ég að vanda mig svona almennt í lífinu í dag.
Huld starfar í dag sem verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík og Hvalasafninu á Húsavík. Auk þess kennir hún Kundalini jóga. Áður hefur hún unnið hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu í 11 sumur, lengst af sem leiðsögumaður.
Ég myndi segja að leiðsögumannsstarfið hafi gefið mér alveg ofboðslega mikið. Í raun mun meira en ég gerði mér grein fyrir fyrst. Ég byrjaði þar fyrir hálfgerða tilviljun en öll þess ár gáfu mér alltaf skýrari sýn á það hver ég var og hvernig ég sá heiminn. Ég t.d. lærði ekki að meta þetta fallega svæði umhverfis Skjálfandaflóann fyrr en ég sá það með augum ferðamannsins. Síðan þá hef ég einhvern veginn metið fegurðina sem við eigum í þessu landi mjög mikils og náttúruna almennt.
Áttu þér einhvern uppáhalds stað í veröldinni?
Góð spurning. Hvað gerir stað að uppáhaldsstað? Ég ber ofboðslega sterkar taugar til Skjálfandaflóa og finnst fátt betra í heiminum en að sigla um hann. Innan um hvalina, með sjávarilminn í nösunum. Þá uppgötvaði ég nýjan töfrastað fyrir um ári síðan, sem er einmitt við Skjálfanda, nánar tiltekið á Tjörnesinu. Þar er staður sem heitir Tungulending og þar er einhver ólýsanlegur friður og orka.
Af því að þú nefnir Skjálfandaflóann. Ertu uggandi um áhrif fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju á Bakka og stór aukna skipaumferð sem fylgir henni á lífríkið í flóanum? Telur þú jafnvel raunhæfa hættu á því að hvalurinn hverfi úr flóanum?
Gaman að þú skulir nefna þetta. Ég hef mikið hugsað um þetta síðastliðna mánuði. Að sjálfsögðu er þetta inngrip í náttúruna og Skjálfandaflóann sjálfann. Hafandi stærstu skepnur jarðar í þessum litla flóa, verður að teljast líklegt að þetta komi til með að hafa áhrif á hvalina og lífríkið. Hversu mikil áhrif verður síðan tíminn að leiða í ljós. Ég tel mjög mikilvægt
að gera ráðstafanir hvað varðar umferð stórskipa og horfa til annarra svæða í heiminum sem hafa reynslu af slíku.
Sú hætta að hvalirnir hverfi úr flóanum er alltaf fyrir hendi, hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar völdum. Ég hef alltaf sagt að við sem búum á Húsavík í dag, svo ég tali ekki um æskuna sem elst hér upp núna, séum lánsöm að fá að lifa í svona miklu návígi við hvalina. Því einmitt, það er aldrei að vita hvenær þeir hverfa á brott. Persónulega tel ég mikilvægt að við þekkjum þessi dýr og vitum af tilvist þeirra. Það er ákveðin ástæða fyrir því að hvalirnir sækja hingað. Mér finnst að þeir eigi að fá að vera hluti af þekkingu okkar og menningu sem samfélag, en ekki aðeins afmarkaðs hóps sem hingað sækir.
Þú bjóst um tíma í Þýskalandi. Hvað varstu að gera þar?
Já, ég fór fyrst sem skiptinemi þegar ég var 18 ára og bjó þá hjá yndislegri fjölskyldu í Heidenheim. Um 50 þúsund manna bæ í Suður Þýskalandi. Þar var ég svo heppin að fá að ganga í Waldorfskóla. Það var margt sem ég skildi ekki við skólann og stefnuna á sínum tíma sem hefur síast inn með tímanum. Rudolf Steiner og hans stefna á að mínu mati vel við í dag og jafnvel betur og betur með tímanum. Ég heillaðast af Suður Þýskalandi á þessu ári sem ég dvaldi þar og fór aftur sem skiptinemi í þýskunáminu í HÍ. Þá til Konstanz, sem er yndislegur bær við landamæri Sviss. Þar keypti ég mér hjól og hjólaði reglulega yfir landamærin til Sviss. Það fannst mér alveg magnað, verandi þessi eyjaskeggi sem ég er.
En hefur Huld alltaf vitað hvað hún vildi verða?
„Nei, því fer reyndar fjarri,“ segir hún og hlær.
Ætli ég hafi ekki verið svolítið týnd þegar kom að því að velja nám eftir framhaldsskólann. Mér fannst ekkert vera til ‚fyrir mig‘. Systir mín benti mér síðan á nám í félagsráðgjöf og einhvern veginn hitti það í mark. Mér fannst á þeim tíma ekkert annað koma til greina. Ég var nefninlega svo sannarlega til í að bjarga heiminum! Ég hóf nám í félagsráðgjöf við HÍ og lauk tveimur árum. Þegar kom að því að hefja þriðja árið fann ég mig á stað þar sem ég þurfti virkilega að bjarga sjálfri mér áður en ég gæti nokkru sinni bjargað einhverjum öðrum.
Foreldramissir hefur djúpstæð áhrif
Ég hafði misst móður mína úr krabbameini um sumarið og einhvern veginn var allt yfirþyrmandi. Ég hafði ekki andlegan þroska í að syrgja eða vinna úr áfallinu. Ég fann mjög skýrt að ég gat ekki haldið áfram í félagsráðgjöf; til þess var ég einfaldlega of veik sjálf. Ég skipti því algjörlega um stefnu og skráði mig í þýsku við HÍ. Eftir rúmt ár í þýsku flutti ég svo norður aftur og varð fljótlega ófrísk af eldra barninu. Meðfram barneignum og fæðingarorlofum tók ég svo einn og einn áfanga, en komst að því að það er ekki vænlegt til árangurs að nema tungumál utan skóla í háskóla. Því setti ég háskólanámið í bið um stund.
Í millitíðinni fór ég í kennaranám í Kundalini jógafræðum og tók kennararéttindi í barnajóga. Í janúar síðastliðnum gerði ég svo þriðju tilraunina til að hefja nám og skráði mig í félagsfræði við HÍ, þar sem ég var svo lánsöm að fá mikið af áföngum metna úr félagsráðgjöfinni. En í lok janúar greindist faðir minn með illkynja mein og tók ég þá ákvörðun að skrá mig úr námi, enda vildi ég vera til staðar fyrir hann. Ég sé alls ekki eftir því, en hann lést aðeins 6 vikum síðar.
Annars finnst mér ég heppin að því leyti að fyrir þremur árum bauðst mér starf sem verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands og Hvalasafninu og einhvern veginn fannst mér það sanna fyrir sjálfri mér að stundum er brennandi ástríða allt sem þarf. ég nefninlega elska vinnuna mína, því hún snýr að því sem ég hef hvað mestan áhuga fyrir, þ.e. Skjálfanda, hvölum, náttúrunni almennt og samskiptum og samstarfi við fólk.
Ástvinamissirinn hlýtur að hafa sett spor sín á líf þitt. Hvernig hefur verið að vinna sig út úr sorginni eða með henni?
Jú, að sjálfsögðu gerir hann það.
Þegar móðir mín lést fyrir 10 árum, hafði ég ekki þroska eða getu til að syrgja eða vinna úr áfallinu. Það kom í raun mörgum árum síðar, í sjálfsvinnu. Ég grét lítið eftir að hún dó og var í raun ófær um að skynja eða skilgreina eigin tilfinningar og líðan. Það var öðruvísi í þetta skiptið, þar sem ég var á allt öðrum stað andlega og tilfinningalega.
Ég hef líka alltaf verið nánari föður mínum og í raun mikil pabbastelpa allt mitt líf. Hann var alltaf til staðar fyrir okkur fjölskylduna og því voru veikindi hans og andlát mikið áfall.
Mér finnst mjög mikilvægt að tala um sorgina og þessi áföll því þau eru stór hluti af mér. Fyrst og fremst er mikilvægt að muna að sorgin er eðlileg og í raun lífsnauðsynleg í því ferli sem tekur við eftir ástvinamissi. Fyrst eftir andlátið fann ég fyrir miklu andlegu og hugrænu álagi. Ég fann að geta mín til að hugsa og vinna úr einföldustu málum t.d. í vinnunni var aðeins brotabrot af venjulegri getu minni. Ég átti erfitt með að muna hluti og afköstin voru minni. Ég grét líka mjög mikið. Fyrstu vikurnar grét ég daglega, hvort sem það voru falleg orð frá einhverjum eða mitt eigið hugsanaleiftur sem kveiktu á táraflóðinu gilti einu. Þegar manneskja sem er svo stór hluti af þínu daglega lífi kveður svo snögglega eru viðbrigðin mjög mikil. Allt minnir á hann.
Með tímanum fór ég gráta minna og ég fór að líta á sorgarferlið sem eins konar andlega endurhæfingu. Ég gaf mér tíma til að finna til og upplifa, sakna, syrgja og gráta með ekka. Ég reyndi að hugsa vel um mig, tala við fólk um líðan mína, fara í nudd og þess háttar sem ég veit að gerir mér gott.
Á meðan á veikindunum stóð og eftir andlátið sóttum við hjónin líka tíma hjá fjölskylduráðgjafa, sem gerði okkur gríðarlega gott. Við höfðum leitað til hans áður og í raun nokkuð reglulega og var það ómetanlegt á þessum erfiðu tímum. Í raun myndi ég alltaf ráðleggja fólki að leita sér faglegrar aðstoðar á erfiðum tímum, það er í mínum huga alltaf merki um styrk að leita sér aðstoðar, aldrei veikleika. Að ræða við fólk sem hefur reynslu af einhverju getur sparað manni óteljandi erfiðar og flóknar stundir og aðstæður.
Ég átti framan af mjög erfitt með að sjá fyrir mér afmælisveislur barnanna minna eða jólin án ‘afa Hafliða' og langaði mest til að sleppa því öllu saman. En sem betur fer rofar til og fer að birta um síðir. Lífið heldur áfram, þrátt fyrir að vera breytt á margan hátt.
Brúðkaup í sorgarferli
Eftir veikindi og andlát föður míns fékk ég mikla löngun til að gera hluti sem ég hafði alltaf ætlað að gera en fannst tíminn aldrei vera réttur. T.d. að gifta mig. Ég ætlaði alltaf að gifta mig á meðan pabbi var á lífi en einhvern veginn var aldrei rétti tíminn. Kjóllinn passaði ekki eða ég gat ekki ákveðið hvernig veislan ætti að vera. Þegar það tækifæri var úr greipum runnið, þá fann ég ákafa löngun til að láta verða af þessu. Ég vildi alls ekki bíða lengur og vildi gera þe
tta fyrir okkur fjölskylduna og framtíðina. En líka á einhvern táknrænan hátt sem örlítið ljós í miðju sorgarferlinu. Það er oft þannig með stór áföll að þau geta bæði sameinað og sundrað. Í okkar tilviki urðum við mjög samstíga og tókum út mikinn þroska saman sem par. Við vildum innsigla það. Fyrir okkur, börnin okkar,- og pabba á ákveðinn hátt. Því fórum við þá leið að gifta okkur í sumar. Með aðeins börnin okkar viðstödd ásamt tveimur vottum. Andlega höfðum við ekki burði til að skipuleggja eða halda veislu á þessum tímapunkti, en við vildum ekki láta það ráða til um ákvörðunina. Við völdum einn af okkar uppáhaldsstöðum og giftum okkur kl. 18 á sólríkum fimmtudegi. Að sjálfsögðu kom það ættingjum okkar og vinum mjög á óvart; en ég er viss um að flestir hafi skilið aðstæður okkar og ákvörðun um að gera þetta svona óhefðbundið.
Að lokum, hvernig er að búa á Húsavík? Er þetta góður staður fyrir barnafólk?
Mér finnst yndislegt að búa á Húsavík. Ef ég hefði verið spurð um og upp úr tvítugu, hvort ég sæi það fyrir mér að ég ætti eftir að búa á Húsavík í framtíðinni, þá hefði ég fussað og sveiað. Já og örugglega frussað á viðkomandi í vanþóknun. Ég hélt ég myndi aldrei hafa áhuga á að búa á Húsavík. Ég bjó í Reykjavík meira og minna í 10 ár og mér fannst lífið vera þar. Innan um vinina, kaffihúsin og verslanirnar. En einhvern veginn, og með auknum andlegum þroska, innri ró og já [hóst] líklega hækkandi aldri þá var tilhugsunin um að búa á Húsavík alls ekki svo slæm. Sú staðreynd að fjölskylda mín var nánast öll staðsett á Húsavík spilaði líka stóra rullu. Mér fannst mikilvægt að börnin mín hefðu aðgang að ákveðnu öryggisneti. Þau voru bæði t.d. mjög tengd afa sínum, föður mínum sem lést í mars. Hann var í raun þeirra besti vinur. Vináttan og kærleikurinn sem streymdi milli þeirra var svo falleg og dýrmæt að hugmyndin um að taka það af þeim var aldrei inni í myndinni. Að geta hjólað til afa sem hefur tíma til að spila ólsen ólsen og taka bíltúr á ‚Gónhólinn‘ eru forréttindi. Börn læra öðruvísi af ömmum og öfum heldur en af foreldrum sínum. Því var ég afar þakklát fyrir þessi rúmu fimm og sjö ár sem þau fengu saman.
Föðurafi minn og amma voru bæði látin þegar ég fæddist. Sjálf ólst ég upp fjærri móðurafa mínum og ömmu. Þess vegna finnst mér þetta kannski merkilegra og dýrmætara en öðrum.
Í dag hef ég yfirleitt nóg að gera. Ef það er ekki vinnan, þá er það jógakennsla eða félagsstörf. Á þannig tímum finnst mér best af öllu að búa á litlu Húsavík, með öllum sínum stuttu vegalengdum, þjónustu í göngufjarlægð og dásamlegu tengsla- og öryggisneti. Þá fer tíminn ekki í óþarfa keyrslu milli staða eða umferðarteppur. Tilhugsunin um að geta ‚skroppið‘ og gert eitthvað er líka ómetanleg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir