Flýtilyklar
„Ekkert að fela að það sé stelpa á sviðinu“
Helga Ragnarsdóttir er 29 ára tónlistarkona frá Húsavík. Hún er skoðanasterk, hávær, utan við sig og sífellt hugsi að eigin sögn. Helga kemur úr mikilli tónlistarfjölskyldu og því kemur kannski ekki á óvart að tónlistin sé henni kær.
„Ég ólst upp við að allir væru eitthvað að fást við tónlist. Ég er svolítill sveimhugi og hef lítið getað fest mig við einn stað, hlut eða viðfangsefni. Nema þá helst þegar kemur að tónlist. Henni missi ég aldrei áhuga á. Þannig að þegar kom að því að velja sér einhverja leið í lífinu ákvað ég að láta áhugann ráða og finna síðan leið til að láta það virka.“
Helga hefur lengi lagt fyrir sig söng og píanó, lagði stund á BA nám í tónsmíðum og mastersnám í söng. Hún hefur unnið við tónlist í áhugaleikhúsum og síðar í Leikhópnum Lottu þar sem hún var á hljómborðinu, auk þess að leika hlutverk í sýningunni. „Mér finnst einstaklega gaman að leika þegar mér gefst færi á því,“ segir hún.
Undanfarin ár hefur Helga verið að spila með nokkrum hljómsveitum, ber þar helst að nefna Rökkurró sem gaf út plötuna Innra í fyrra. Hún var einnig í hljómsveitinni Boogie Trouble um tíma en hætti í henni þegar hún flutti til London til að hefja mastersnám sitt í tónlist.
„Mig langaði svolítið til að prófa að flytja út fyrir landsteinana sem væri samt í þokkalegri nálægð við Ísland. Í London var nýtt mastersnám sem var einstakt sinnar tegundar í heiminum svo ég lét slag standa. Núna bý ég bara í London og vinn eins mikið við tónlist og ég get.“
Í London hefur hún verið iðinn session leikari.
„Ég syng mjög mikið með kórnum London Contemporary Voices, sem stofnaður var í kringum tónleika með Imogen Heap og hefur tekist á flug núna á síðustu misserum. Í gegnum kórinn hef ég sungið með Imogen Heap, Basement Jaxx, Lucy Rose, Guy Sigsworth og fleiri, inn á ýmsar upptökur og á alls konar samkomum. Síðan er ég að spila með tveimur folk söngkonum; henni Ösp Eldjárn sem ég bý með í London og Lucy Ward, sem hlaut nýliðaverðlaun BBC Folk Award fyrir nokkrum árum.“
Þessa stundina er Helga að spila á þriggja vikna löngu tónleikaferðalagi um Norður Evrópu með þungmálms hljómsveitinni Skálmöld. Hún er þar í afleysingum fyrir hljómborðsleikara sveitarinnar Gunnar Ben. Fyrir í hljómsveitinni eru bræður Helgu, þeir Snæbjörn, eða bibbi, og Baldur Ragnarssynir.
„Þetta er svona svolítið út fyrir rammann. Ég þekki nú þyngri tónlist býsna vel þótt ég hafi lítið vasast í henni sjálf, svo það er í sjálfu sér ekkert vandamál að læra tónlistina. En spilastíllinn er allur annar. Ég þurfti að taka mér góðan tíma til að þjálfa upp á mér hendurnar, fara mér ekki of geist og fá ekki bólgur og vesen sem getur gerst þegar maður byrjar að nota nýja vöðva.“
Helga syngur einnig línurnar hans Gunnars í fjarveru hans og er þá oft að syngja upp um áttund vegna þess að hún er sópran.
„Við erum ekkert að fela að það sé stelpa á sviðinu.“
Fjöldamorðin 13. nóvember í París hafa ekki farið framhjá nokkrum manni. En 89 létust og fleiri særðust þegar heilaþvegnir hálfvitar réðust inn á tónleikastaðinn Bataclan undir tónleikum Bandarísku rokkhljómsveitarinnar Eagles of Death Metal og hófu þar skothríð; fyrir málstað sem engin skilur. Alls 130 manneskjur létu lífið í árásum vítt og breitt um borgina þetta kvöld. Öll Evrópa er í sjokki, í sárum. Það hlítur því að vera sérstök tilfinning að hefja þriggja vikna tónleikaferð um Evrópu svo skömmu eftir hryllinginn í París.
„Auðvitað tengir maður öðruvísi þegar svona gerist í aðstæðum sem maður er sjálfur oft í. Þetta hreyfði alveg við manni. En það kom aldrei upp sú hugsun að láta þetta hafa nokkur áhrif á það sem ég geri. Ég get í raun ekki sagt að þetta hafi breytt stemmingunni í hópnum að neinu ráði. Við fylgjumst bara með fréttum um stöðuna í heiminum. Ég get ekki sagt að þetta sé mér ofarlega í huga þegar ég stíg á svið. Áhorfendur virðast ekki heldur láta þetta hafa áhrif á sig. Það er jafnan fullt og allir í góðu fjöri. Mest held ég að þetta hafi áhrif á fólkið okkar heima, sem heyrir bara fréttir af ófremdarástandi erlendis. Við erum öll frekar dugleg að senda skilaboð heim, þá sérstaklega til mömmu sem á öll börnin sín í sömu rútunni þennan mánuðinn.“
Það er vel þekkt mýta (eða ekki mýta) að rokkaralífstílnum fylgi ákveðið sukk, er Helga dugleg að viðhalda þessum mýtum?
„Nú drekk ég í fyrsta lagi ekki bjór, sem er alveg afleitt þegar maður er að spila á börum sem vilja helst ekki gefa manni neitt annað en bjór að drekka. Bjór finnst mér mjög vondur. En í drykkjunni er ég bara svona meðal held ég. Það koma duglegir dagar og aðrir dagar eru rólegri.“
Að búa í rútu vikum saman, það hljóta að fylgja því einhver hlunnindi eins og vond lykt og háværar hrotur?
„Baldur prumpar mest en bibbi hrýtur hæst. Og ég er svo heppin að vera í kojunni á milli þeirra.“
Talandi um Baldur. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir frjálslegann klæðaburð á sviði með Skálmöld; en hann kemur að jafnaði fram ber að ofan. Er hann enn eina systkinið sem er svona óforskammaður?
„Já, enn sem komið er. Ég er reyndar ekkert sérstaklega mikið að passa mig, vanalega ekki í brjóstahaldara og ómáluð á þessum metalgiggum. Svo spilum við systkinin oft sokkalaus á túrnum.“
Rokksenan og þá sérstaklega þungarokksenan hefur haft það orð á sér að vera fremur karllæg. Það sama má kannski segja um tónlistarbransann yfir höfuð. En skyldi þetta ekkert vera að breytast?
„Tónlistarsenan er fremur karllæg en það er mikið að breytast. Fleiri konur eru komnar á öll hljóðfæri, í hljóðblöndunina og barasta allt. Það eru þó mjög sjaldan kvenkyns hljóðmenn. Ég hef ekki lent í miklu mótlæti myndi ég segja, en maður finnur auðvitað stundum fyrir því að vera stelpa. Hrútskýringar (eða 'mansplaining' eins og það er kallað) birtast í formi þess að sumir karlar halda að kona kunni ekki á verkfærin sín, skilji ekki tæknimálið eða geti ekki tekið til hendinni. Á hinum endanum er stundum erfitt að spyrja spurninga af hættu við að vera bara kölluð heimsk stelpa og talað verði niður til manns það sem eftir er. Sem betur fer er þetta samt á undanhaldi með árunum og vanalega eru það mestu fíflin sem kunna varla sitt eigið stöff sem láta svona. En ég hef oft verið spurð hvort ég sé 'með bandinu' og þurft að útskýra að ég sé bandið.“
Helga reynir að vera ekkert að hugsa of langt fram í tímann eins og sakir standa og segist ekkert vera á heimleið í bráð.
„Mér leiðist stefnan í stjórnmálunum heima um þessar mundir og finnst barasta mjög þægilegt að búa í Bretlandi.“
Hún sér þó fyrir sér að hún muni yfirgefa London á næstu árum en hefur ekki ákveðið hvert.
„Á dagskránni núna er eingöngu að koma tónlistinni í farveg, nú þegar ég er búin að koma öðru frá (eins og japönskunni.) En sú dagskrá gæti breyst eftir viku. Kannski flyt ég heim til Íslands einn daginn, það verður bara að fá að koma í ljós. En ég vona að ég komi heim að spila reglulega. Sökum lífsstílsins í London og stífrar dagskrár hef ég lítið samið undanfarin misseri en ætla að hefjast handa við að móta mína eigin tónlist strax eftir jól. Ég vil ekki hafa of sterkar hugmyndir um hvernig framtíðin á að vera, því ég vil vera opin fyrir tækifærum, en tónlistin er númer eitt, tvö og þrjú nákvæmlega núna.“
Hér að neðan má sjá myndband af Ösp Eldjárn flytja lagið Sól í sól ásamt Helgu, Maiken Marlen Sundby og Sam Pegg á bassa, á tónleikum sem fóru fram í september síðastliðnum á Sofar í London. Þess má geta að Sam er kærasti Helgu.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir