Flýtilyklar
Hafragrautur, slátur og fimm tonn af osti
,,Ég er búinn að borða graut og slátur frá því ég man eftir mér”
Það er haust í lofti þegar ég vakna til þess að hefja daginn á hafragraut með afa og ömmu. Afi minn, Guðmundur, situr við kringlótt eldhúsborðið og horfir út um gluggann þegar ég stíg fram úr herberginu. Eldhúsið er bjart. Eitt er víst, að það er erfitt að fá nægju sína af því útsýni sem ber fyrir augu inn um eldhúsgluggann. Blá áin rennur sinn farveg og reynist skörp andstæða við sölnað grasið á bökkunum og gráma hraunsins. Það er dráttur í ánni. Frá árbökkunum beggja vegna er stutt í hraunið, hraunið sem geymir margar góðar bernskuminningar afa. Mótíf hraunsins eru fjölskrúðug og bjóða augum áhorfandans á leik og því verða morgunstundirnar í Fellsmúla hver á sinn hátt einstakar. Útsýnið er afa Guðmundi og ömmu Halldóru mikilvægt og nærir svo sannarlega sál þeirra dag hvern.
Afi klórar sér í skeggrótinni á meðan hann nagar skeggið sem er hvað næst vörum hans. Þessi athöfn er orðin að vana sem hefur róandi áhrif á mig og ömmu. Skegg hans er steingrátt og litfagurt en amma er nýbúin að snyrta það. Sólargeislarnir skína í gegnum gluggann og strjúkast við skallann á afa. Afi er klæddur í ljósar buxur og köflóttan stuttermabol, bláan og hvítan, sem minnir á liðin íþróttaár. Í brjóstvasanum geymir hann rauðleitt leðurveski og gleraugu til lestrar. Leðurveskið er í stíl við axlaböndin en vínrauður litur þeirra dregur fram hlýju afa og roðan í vöngum hans. Bakvið afa stússast amma í eldhúsinu. Þó afi sé fullfær um að skella í morgungrautinn sem hann kýs að hefja hvern dag á þá telur hann ömmu enn hæfari. Hér er um að ræða hið hárfína hlutfall. Amma notar augnmálið og tilfinninguna til að ná grautnum réttum í þykkt og bragði. Því er ljóst að hún hefur verið eitthvað annars hugar ef hann brennur við en þau skipti eru sjaldgæf. Í dag brennur grauturinn því ekki og við amma setjum grautinn okkar í skálar en afi vill frekar hafa grautinn sinn í djúpum disk. Djúpur diskur veitir slátursneiðunum víst nægjanlegt rými en afi kýs að brytja þær niður jafnóðum með grautarátinu. Við setjumst þrjú niður við borðið og njótum matar okkar. Heitur grauturinn blandast saman við kalda mjólkina.
Hafragrauturinn byggist á því að hafragrjón, vatn og salt séu látin sjóða vel en grauturinn má hvorki vera of þykkur né of þunnur. Þar sem að afi Guðmundur vissi af greinargerð minni varð hafragrauturinn sjálfkrafa okkar aðalumræðuefni og hann segir: ,,Ég er búinn að borða graut og slátur frá því ég man fyrst eftir mér og hef aldrei fundið til í kviðnum”. Fyrir afa er mikilvægt að byrja hvern dag vel og telur hann skál af hafragraut vera lykilinn að heilbrigðara lífi.
,,Nauðsynlegt er þó að hafa slátur með grautnum, lifrapylsu sem og blóðmör, helst vel súr”.
Afi sem hefur vanið sig á grautarát alla sína ævi er því dæmigerður fyrir rannsóknir dagsins í dag og niðurstöðu um að grautarát dragi t.d. úr hættu á að fólk deyi úr hjartasjúkdómum svo dæmi sé tekið. Gaman er að geta þess að hið svokallaða millimál afa er ostur en fyrir nokkrum árum síðan reiknaði yngri bróðir minn út að afi yrði búinn að borða um fimm tonn af osti um áttrætt ef við áætluðum að hann hefði borðað jafn mikið og hann gerði þá, dag hvern frá 12 ára aldri. Afi dregur þó reikninginn og niðurstöðuna verulega í efa en amma fullyrðir að afi vakni á nóttunni til þess að fá sér ostbita. Allir sumarkrakkar sem dvöldu í sveitinni tala um það að hafa lært að borða ost, stundum með smjöri, hjá afa Guðmundi.
Grauturinn rennur vel ofan í okkur eins og aðra daga. Afi nýtur hans og kýs að tala ekkert um of á milli skeiða, grauturinn er betri volgur þó við höfum ósjaldan snætt afgang hans seinna yfir daginn. Við njótum þagnarinnar og sólargeislanna sem skína nú á grautarskálarnar, þá bjóðum við velkomna. Morgunbirtan í hrauninu er ævintýrum líkust.
Að grautnum loknum leggur afi frá sér skeiðina, en stórar bóndahendur hans segja sögu á við heilt ritsafn. Neglur afa vaxa hratt og eru afar sterkar, svo sterkar að ég hef oft dáðst að því. Afi hefur hins vegar oftar blótað nöglunum, og þó sérstaklega örum vexti þeirra eftir að hann hætti daglegum bústörfum því nú þarf hann að snyrta þær reglulega. Afi líkir nöglum sínum við hófa en naglasnyrting var eitthvað sem bóndi hans tíma þurfti aldrei að velta fyrir sér, verkin sáu um að stytta neglurnar. Afi Guðmundur getur státað af því að hafa á ævi sinni sjaldan orðið veikur og þakkar hann grautarátinu fyrir.
Afi Guðmundur segir að hann hafi verið matgráðugt barn og felur ein af hans fyrstu minningum það í sér - Hann þriggja ára að fara á milli bæja, einn sinna ferða:
,,Ég fann upp á því, þar sem ég þekkti svo vel fólkið hér á bæjunum, að heimsækja eldhúsin í kring. Ég var þá kannski búinn að koma í ein fjögur eldhús, eða fimm með eldhúsinu heima, fyrir klukkan ellefu að morgni og hafði með því áttað mig á því hvað ætti að borða hvar í hádeginu. Ég gat því óskað eftir því að fá að borða þar sem mér leist best á. Mömmu og pabba fannst þetta þó ákaflega leiðinlegt og ég man að þau reyndu að venja mig af þessum mataráhuga. Það varð til þess að ég þurfti heldur oft að laumast út. En fólkið, eða konurnar á bæjunum hérna, þær höfðu gaman af þessum heimsóknum mínum og dekruðu við mig. Ég man það vel og heldur styrktist áhuginn á þessum ferðum mínum”.
Afi stendur upp frá borðinu, skolar diskinn sinn og setur hann í vélina. Eftir að hann hætti að vera útivinnandi hefur hann reynt að venja sig á að reyna að létta ömmu eldhúsverkin þó þjónustulund hennar sé mikil og stundum um of. Afi teygir sig eftir kaffivélinni og hellir upp á kaffi. Að grautaráti loknu þarf heitur kaffibolli nefnilega að taka við. Kaffileysi myndi setja morgunstundina í algjört ójafnvægi. Afi vill mjólkurdreitil út í kaffibollann sinn en hefur vanið sig af sykurmolunum. Ósköp sem honum finnast þeir þó góðir, oft áttu 4-5 sykurmolar það til að hverfa með kaffidrykkjunni. Já, sykurmolunum hefur fækkað og munntóbakið er orðið sjaldséð vara á hæðinni í Fellsmúla.
Nóa Siríus suðusúkkulaði og Vallas
Ljóst er að afi Guðmundur mun seint leggja niður hafragrautsát sitt og hefur morgunstundin yfir grautarskálinni og sláturssneiðunum orðið að vissri staðfestu í lífi hans, fastur punktur í daglegri rútínu nú fullorðins manns. Hann hefur hlotið þá blessun að halda góðri heilsu í gegnum tíðina og þakkar því hollri íslenskri fæðu. Þó hefur hann borðað það sem margir myndu telja óhóflega mikið af t.d. osti og smjöri, drukkið mikið af feitri mjólk, neytt munntóbaks og neytt brennivíns á tyllidögum. Á ferðalögum telur afi nauðsynlegt að hafa Nóa Siríus suðusúkkulaði innan seilingar sem og Vallas, sem búðarstarfsmenn þekkja í dag betur sem Appelsín. Ef þig langar virkilega að gleðja hann þá þykir honum ísinn líka góður. En fyrst og fremst neytir afi íslensks heimilismatar. Ljóst er að ég hef lært mikið af samskiptum mínum við afa og ömmu og eru þau mér ómissandi. Í því samfélagi sem við lifum við í dag er hraðinn mikill og þá er gott að geta leitað til þeirra til þess að draga andann og átta sig á raunverulegum lífsgildum. Að fá að kynnast matarmenningu afa og ömmu og fá tækifæri til þess að bera hana saman við matarmenningar okkar í dag hefur reynst mér hollt. Við lifum í samfélagi þar sem sífellt er verið að kynna nýjar rannsóknir, kynna fyrir okkur hvað má og hvað má ekki. Dag hvern gerir einhver tilraun til þess að setja reglur í von um að sem flestir kjósi að fylgja þeim. Fæstir vita í raun og veru hvað er æskilegt að borða og eru því alltof margir áttavilltir og ofþyngd landsmanna sjáanleg. Alltof margir leyfa samviskubiti yfir súkkulaðibitum að eyðileggja fyrir sér daginn en samviskubitið er fjarri jafnvæginu sem þarf til þess að líða vel í eigin skinni. Af samveru minni við þá lífsreyndari, afa og ömmu, hef ég lært að það eina sem gildir er að gæta hófs og þakka fyrir heimilsmatinn sem flestir Íslendingar hafa aðgang að. Ásamt því að taka passlega mark á boðum og bönnum hvað mataræði varðar heldur njóta stundarinnar.
Von mín er sú að lýsingar mínar á morgunstund hjá afa og ömmu hafi veitt þér, lesandi góður, hlýju. Ósköp sem þær stundir hlýja mér allavega. Sögur afa og ömmu, samræðurnar sem eiga sér stað yfir eldhúsborðinu, hlátrasköllin, er snar þáttur í þeim morgunstundum sem ég mun seint fá nægju mína af. Ljóst er að hafragrautur og slátur verður borðað á mínu heimili um ókomna tíð.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir