Flýtilyklar
Hjúkrunarfræðingar framtíðarinnar
Staða íslenska heilbrigðiskerfisins hefur mikið verið í deiglunni undanfarin misseri. Mikill niðurskurður undanfarin ár og kjaradeilur heilbrigðisstétta er aðeins hluti af vandamálinu. Landspítalinn, stærsta sjúkrahús landsins. Okkar þjóðar sjúkrahús er orðið of lítið og úr sér gengið. Starfsfólk kvartar undan lélegum vinnuskilyrðum og að tækjakostur sé löngu úreldur. Háværar raddir eru um það innan heilbrigðisgeirans að lífi og heilsu sjúklinga sé stöðugt stefnt í hættu. Nú stendur yfir fordæmalaust dómsmál yfir einstaklingi; hjúkrunarfræðingi ákærðum fyrir manndráp af gáleysi. En sjúklingur í hans umsjá lést árið 2012. Láðst hafði að tæma loft úr kraga á barkaraufarrenu þegar sjúklingurinn var tekin úr öndunarvél og talventill settur á barkaraufarrennuna. Þetta leiddi síðan til dauða sjúklingsins. Mikill uggur er í starfsfólki allra heilbrigðisstétta vegna málsins.
Þrátt fyrir manneklu og óvissuástand í heilbrigðiskerfinu má finna ungt fólk sem enn lítur framtíðina björtum augum. Háskólinn á Akureyri útskrifar á ári hverju fjölda hjúkrunarfræðinga. Landpósturinn tók stöðuna og ræddi við fjóra útskriftarnema.
Birgitta Káradóttir:
Þú ert að útskrifast í vor sem hjúkrunarfræðingur við Háskólann á Akureyri, hvernig er tilfinningin?
Hún er bara ólýsanleg. Ég hélt að ég myndi aldrei fara í háskólanám. Ég hætti snemma í framhaldsskóla en kláraði hann svo loks eftir fjarnám og þrjá mismunandi skóla en það var bara af því ég vissi ekki hvað ég átti annað að gera. Háskólanám var mér mjög fjarlægt einhvern veginn.
En hvers vegna hjúkrunarfræði?
Ég vann á sínum tíma við ræstingar á sjúkrahúsinu á Húsavík og þar heillaðist ég fyrst af umönnunarstarfinu. Ég byrjaði svo að vinna við umönnun aldraðra á sjúkrahúsinu. Mér fannst starfið svo gefandi, mér leið vel í vinnunni og þar kviknaði þessi draumur.
Nú hefur nýlega allt logað í kjaradeilum hjá hjúkrunarfræðingum, ekki í fyrsta skipti. Nú er einnig í gangi dómsmál gegn hjúkrunarfræðingi sem hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna meintra mistaka í starfi. Hvernig hafa þessi mál áhrif á þig? Hefur þú íhugað annað nám vegna þessa?
Launin eru auðvitað ömurleg fyrir fjögurra ára háskólanám og alla þá ábyrgð sem starfið hefur að geyma. Ég satt að segja hugsaði ekki út í það þegar ég skráði mig í námið. En ég varð mjög reið yfir þessu þegar ég var komin lengra í náminu og farin að kynnast starfi hjúkrunarfræðinga almennilega. Það kom hins vegar aldrei til greina að vinna við neitt annað. Þetta langar mig að starfa við og ég ætla að gera það. Þó launin séu ekki eitthvað til að hrópa húrra fyrir þá gefur starfið mér margt annað. Það er ótrúleg tilfinning að vita að maður er að gera eitthvað gott fyrir fólk og maður fær mikið þakklæti frá skjólstæðingum og aðstandendum. En ég vona að tímarnir breytist og við verðum sjálf sem stétt að berjast áfram fyrir því.
Hitt málið með hjúkrunarfræðinginn sem var kærður er hræðilegt mál. Það sést á öllum samhugnum sem hjúkrunarfræðingurinn hefur fengið í gegnum ferlið hvað öllum finnst þetta óréttlátt og fáránlegt að sækja persónuna sjálfa til saka. Frekar ætti að kæra stofnunina. Þetta hefur haft þau áhrif á mig að mig langar ekki að vinna á Landspítalanum vegna álags sem starfsfólkið þarf að þola.
Helga Sigurveig Jóhannsdóttir:
Þú ert að útskrifast í vor sem hjúkrunarfræðingur við Háskólann á Akureyri, hvernig er tilfinningin?
Tilfinningin er mjög góð. Hjúkrunarfræðin er erfitt og krefjandi fjögurra ára nám svo það eru ekkert nema góðar tilfinningar sem fylgja því að klára námið. Það er einnig svolítið fullorðins að vera útskrifast sem hjúkrunarfræðingur og fá starfsréttindi sem slíkur.
En hvers vegna hjúkrunarfræði?
Þetta er kannski mikil klisja; en mig hefur alltaf langað til að verða hjúkrunarfræðingur. Hjúkrunarfræði er mjög skemmtilegt nám þrátt fyrir að vera erfitt og krefjandi. Ég byrjaði á því að mennta mig sem sjúkraliði við Verkmenntaskólann á Akureyri. Eftir að ég kláraði það nám þá fannst mér leiðin liggja beint í hjúkrunarfræðina. Hjúkrunarfræðingar vinna mjög skemmtilegt og krefjandi starf sem hefur alltaf heillað mig.
Nú hefur nýlega allt logað í kjaradeilum hjá hjúkrunarfræðingum, ekki í fyrsta skipti. Nú er einnig í gangi dómsmál gegn hjúkrunarfræðingi sem hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna meintra mistaka í starfi. Hvernig hafa þessi mál áhrif á þig? Hefur þú íhugað annað nám vegna þessa?
Þetta eru mjög leiðinleg tíðindi að hjúkrunarfræðingurinn sé að lenda í vandamálum við það að reyna bjarga mannslífi. Við erum öll mannleg og gerum öll mistök. Mistök hjúkrunarfræðinga geta verið dýrkeypt en mér finnst virkilega leiðinlegt að hún ein sé að lenda í þessum réttarhöldum. Ég hef ekki íhugað að fara í annað nám vegna þessara frétta, en maður finnur til með hjúkrunarfræðingnum og styður hana heilshugar. Ef maður myndi alltaf íhuga að skipta um starf eða nám þegar að illa gengi þá myndi maður ekki tolla lengi í starfi eða námi. Alltaf koma upp einhver vandamál en maður þarf að takast á við þau hverju sinni. Hjúkrunarfræðingar hafa mikla ábyrgð og þurfa að standa undir henni. Það er samt ekki rétt að láta hana eina svara til saka þar sem margt annað getur spilað inn í þessi mistök hennar.
Lýdía Rós Hermannsdóttir:
Þú ert að útskrifast í vor sem hjúkrunarfræðingur við Háskólann á Akureyri, hvernig er tilfinningin?
Það sem fyrst kemur uppí hugan er stress og á sama tíma léttir. Hjúkrunarfræði er krefjandi nám og verður því léttir að klára námið en á sama tíma er maður stressaður fyrir framhaldinu, er maður tilbúin að takast á við svona krefjandi og ábyrgðarmikla vinnu?
En hvers vegna hjúkrunarfræði?
Hjúkrunarfræði hefur alltaf heillað mig. Maður fær tækifæri til að hjálpa einstaklingum þegar þau eru á erfiðum tíma í lífinu vegna heilsu sinnar og ná því ekki að hugsa alveg um sig sjálf. Einnig er þetta nám sem mun nýtast manni í daglegu lífi og gefur manni réttindi til þess að vinna nánast hvar sem er í heiminum.
Nú hefur nýlega allt logað í kjaradeilum hjá hjúkrunarfræðingum, ekki í fyrsta skipti. Nú er einnig í gangi dómsmál gegn hjúkrunarfræðingi sem hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna meintra mistaka í starfi. Hvernig hafa þessi mál áhrif á þig? Hefur þú íhugað annað nám vegna þessa?
Áður en ég skráði mig í námið áttaði ég mig á að launin væru ekki þau bestu miðað við álag, ábyrð og menntun. Mér finnst hjúkrunarfræðingar eiga töluvert betri laun skilið en þau sem voru samþykkt í kjaradeilunum. Þetta er þó á réttri leið. Í dag er ég töluvert verr stödd peningarlega en þegar ég skráði mig í námið frekar en ef ég hefði haldið áfram að vinna sem sjúkraliði. Nú með nokkrar milljónir í námslán á bakinu.
Varðandi réttarhöldin þar sem hjúkrunarfræðingurinn situr fyrir dómi vegna manndráps af gáleysi er maður vægast sagt hræddur. Okkur hefur ítrekað verið kennt, að hjúkrun er teymisvinna milli mismunandi fagstétta. Mér finnst ekki réttlátt að einn hjúkrunarfræðingur eigi að sitja fyrir dómi í þessu sorglega máli. Raunin er sú að oft er verið að biðja mann um að taka aukavaktir og vinna lengur útaf undirmönnun. Það eykur líkur töluvert á mistökum sem maður getur verið dæmdur fyrir og endað í fangelsi.
Ég gæti þó ekki hugsað mér að fara í annað nám nema framhaldsnám af einhverju tagi innan heilbrigðiskerfisins. Ég krossa einungis fingur og tær að ástand heilbrigðiskerfisins breytist til hins betra.
Hanna Jóna Stefánsdóttir:
Þú ert að útskrifast í vor sem hjúkrunarfræðingur við Háskólann á Akureyri, hvernig er tilfinningin?
Tilfinningin er dásamleg. Ég hef beðið eftir þessari stund í mörg ár og loksins er farið að glitta í hana!
En hvers vegna hjúkrunarfræði?
Ég byrjaði sem unglingur að vinna sem gangastúlka á öldrunarheimili og heillaðist strax af störfum hjúkrunarfræðinga. Þetta er mjög fjölbreytt starf sem krefst bæði mikillrar þekkingar, tæknikunnáttu og ekki síst færni í mannlegum samskiptum. Engar tvær vaktir eru eins og það hljóta allir að geta fundið sér deild eða starfsvettvang sér að skapi því möguleikarnir eru óteljandi.
Nú hefur nýlega allt logað í kjaradeilum hjá hjúkrunarfræðingum, ekki í fyrsta skipti. Nú er einnig í gangi dómsmál gegn hjúkrunarfræðingi sem hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna meintra mistaka í starfi. Hvernig hafa þessi mál áhrif á þig? Hefur þú íhugað annað nám vegna þessa?
Mér finnst sorglegt hversu lengi hjúkrunarfræðingar þurftu að standa í kjaraviðræðum núna sl. sumar. Ég vona að í mjög náinni framtíð verði störf og ábyrgð hjúkrunarfræðinga metin til launa. Sú staða sem er komin upp í dag eftir þessa ákæru á hendur hjúkrunarfræðingsins er skelfileg. Hún mun hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk og ekki síst skjólstæðinga okkar.
Ég hef nú ekki íhugað annað nám og hugsa að ég láti staðar numið hér á námsferlinum í bili en auðvitað verður tíminn að leiða það í ljós. Eins og staðan er núna ætla ég að leyfa mér að hlakka til að fara að vinna sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir