Hornin voru mín bestu leikföng

Bernskuminningar Indriða Ketilssonar á Ytra-Fjalli

,,Hornin voru mín bestu leikföng. Ég átti ekki langt að sækja áhuga minn á þeim því faðir minn átti enn horn af sinni fyrstu kind þegar ég var að alast upp. Til þess að ég hefði hins vegar einhverja verulega ánægju af hornunum þurfti ég að vita af hvaða skepnu þau voru. Barnið ég þekkti því, um 3ja ára aldur, á um annað hundrað horna enda sat ég löngum stundunum á baðstofugólfinu og lék mér að því að raða gersemum mínum, hlið við hlið, eftir kúnstarinnar reglum. Satt besta að segja fengu systkini mín ekki mikla hlutdeild í þessu, enda svo sem laus við alla ágirnd. Hornin voru mín, ég hafði einkaleyfi á þeim. 

            Fyrsta kindin sem ég eignaðist var goltótt ær af forystukyni. Reyndar ekki hægt að segja að pabbi hafi beinlínis gefið mér hana heldur sá móðursystir mín til þess að skepnan yrði mín. Og það var látið eftir. Golta mín var með eindæmum gæf og fékk ég undan henni marga mannelska hrúta. Um þriggja ára aldur eignaðist ég því hann Hrússa minn, hvítan hrút sem um haustið hélt í Kaupstaðinn. Mér var þá sagt að hann væri geymdur í Sparisjóðnum og átti ég seinna eftir að litast um eftir honum fyrir framan Sparisjóðsborðið. Móðir mín kreisti þá hönd mína örlítið fastar þegar snáðinn ég hvíslaði:

,,Ég sé hvergi Hrússa minn”.

Skepnurnar á Ytra-Fjalli voru mínir vinir svo þó gangur lífsins væri útskýrður fyrir mér vandist hann illa. Við fjárskipti eftir að mæðiveikin herjaði á sauðfjárstofninn gekk ég meira að segja svo langt að láta þau orð falla að mér myndi aldrei þykja vænt um nýja féð. Það fylgja því sárar tilfinningar að missa verðmæti sín.

            Nokkuð er víst að ég kaus að passa upp á mitt og fyrst ég gat ekki ráðið búskaparhögunum alla mína tíð þá varð hirsla sem móðir mín gaf mér, gamall saumavélarkassi með smíðuðu loki, að duga sem mitt yfirráðasvæði. Í honum geymdi ég bæði bækur og allskonar skran sem ég þóttist geta leikið mér að. Leikgildið var þó misjafnt og man ég ekki til þess að hafa leikið mér mikið að augasteinunum úr síldunum sem ég safnaði markvisst úr síldarmjölinu sem var notað sem fóðurbætir. En ég passaði upp á steinana í góðum bauk sem og kvarnir úr fiskhausum. Faðir minn var svo fyrirmynd mín í eldspýtnastokkasöfnun og miða. Miðarnir voru af allskyns varning, hver öðrum meira framandi og spennandi. Í hirslunni leyndust miðar utan af súkkulaði, vindlingum og bandhespum svo eitthvað sé nefnt. Súkkulaðimiðarnir þóttu sérstaklega skrautlegir og þóttu mér þeir nánast ofskreyttir, þaktir medalíum og konunglegu myndefni. Öllu þessu safnaði ég.  

            Við hlið hirslunnar geymdi ég svo kassann með hornunum mínum og bílkubb sem mér hafði áskotnast. Hann var telgdur og hjólin undir honum hringarnir af haglaskotum. Ég gat svo sem leikið mér að honum þó ég hafi lengi vel verið bílhræddur. Barninu mér þóttu þetta skelfilegar ófreskjur sem þutu um. Móðir mín reyndi eitt sinn að sannfæra mig um að verða henni og systur minni, Ásu, samferða út á Tjörnes. Sjálf var hún ættuð þaðan, frá Ytri-Tungu og langaði því skiljanlega að heimsækja fjölskyldu og vini með börnin sín með í för. En það ætlaði ekki að ganga greitt að fá mig með. Þegar við vorum komin hálfa leiðina niður braut, þá spyrnti ég við fótum og harðneitaði að fara lengra. Blessuð móðir mín varð að kaupa mig fyrir tvær krónur. Peninginn hafði vinur hennar á Tjörnesi gefið henni til minningar um sig en peningnum var síðan fórnað til þess að fá mig, drenginn, með sér. Tárin þornuðu þegar ég sá glampa á silfrið en minnisstætt er mér hve æsileg ferðin var. Víðáttan sem átti eftir að heltaka mig á landakortum þaut nú að hluta framhjá og ég fann fyrir ónotalegheitum í maganum. Ónotalegheitin brenndu sig greinilega það djúpt að ég átti ekki eftir festa kaup á bíl fyrr en um 50 árum seinna."

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir