Flýtilyklar
Viðtal við Diktu
Flestir kannast við hljómsveitina Diktu, en hún er íslensk hljómsveit sem stofnuð var árið 1999. Hún hefur gefið út fjórar breiðskífur en þriðja breiðskífa sveitarinnar, Get it together, var 26 sinnum í röð á topp 30 lista plötulista Smáís og þar af margsinnis í fyrsta sæti listans. Þessi sama plata hljómsveitarinnar hefur selst í rúmlega 10.000 eintökum og fengu meðlimir hljómsveitarinnar platínuplötu fyrir. Dikta hefur tvisvar hlotið verðlaun sem vinsælasti flytjandinn á Íslensku tónlistarverðlaununum, árið 2010 og 2011. Nýjasta plata hljómsveitarinnar ber nafnið Easy Street og kom hún út í september. Hljómsveitin verður með marga tónleika á næstunni til að fylgja eftir plötunni.
Byrjið þið að segja mér frá upphafi hljómsveitarinnar:
Dikta er hljómsveit sem varð til í bílskúr í Garðabænum fyrir svakalega mörgum árum síðan. Upphaflega var æft í bílskúr foreldra Jóns Bjarna gítarleikara en svo fengum við aðstöðu í gömlu bæjarskrifstofunum í Garðabæ. Við tókum þátt í Músíktilraunum árið 1999 en þá var söngkona sem heitir Rakel í hljómsveitinni. Eftir það hætti Rakel og Haukur Heiðar kom inn í staðinn. Við tókum svo þátt aftur árið 2000 og komumst þá í úrslit en XXX Rottweiler hundar unnu keppnina það árið.
Hvaðan kom nafn hljómsveitarinnar?
Nafnið kom einfaldlega úr orðabókinni. Dikta er sögn og þýðir að semja, skálda, yrkja eða ljúga.
Hvernig er verkaskiptingin í hljómsveitinni? Hver semur lögin og textana og hvernig er ferlið?
Það er svo sem engin ákveðin verkaskipting í Diktu. Oft kemur Haukur eða einhver annar með lagahugmynd að heiman en svo vinnum við með hana áfram þangað til allir, eða allavega flestir, eru orðnir sáttir. Það er kannski það erfiðasta við að vera fjórir í hljómsveit, að stundum finnst tveimur eitthvað vera flottast á ákveðinn hátt en hinum tveimur ekki. Þá er gott að vera með upptökustjóra sem er þá með úrslitaatkvæðið í höndunum. Haukur semur vanalega alla texta Diktu en Skúli hefur átt nokkra í gegnum tíðina líka.
Eigið þið ykkur fyrirmynd í tónlist? Finnst ykkur þau hafa haft áhrif á ykkar tónlist?
Allir listamenn eiga sér einhverjar fyrirmyndir, hvort sem þeir viðurkenna það eða átta sig á því eða ekki. Við verðum öll fyrir áhrifum af list sem er í kringum okkur þegar við ölumst upp og eftir að við verðum fullorðin líka. Það sem er samt skemmtilegt við okkar fyrirmyndir er að þó við hlustum á ýmsa sameiginlega tónlist, þá hefur tónlistarsmekkur okkar fjögurra alltaf verið talsvert ólíkur. Einn hlustar kannski mikið á metal á meðan næsti hlustar á fusion jazz. Og úr verður skemmtileg blanda af áhrifum.
Upptökustjórinn plötunnar er Sky Van Hoff, hvernig kom það samstarf til?
Við höfum síðustu árin talsvert verið í Þýskalandi að spila á tónleikum og tónlistarhátíðum. Plötufyrirtækið okkar þar úti kynnti okkur fyrir honum en hann er rísandi stjarna í tónlistarbransanum í Þýskalandi. Við fórum fyrst út til hans og tókum upp tvö lög til reynslu og vorum gríðarlega ánægðir með afraksturinn og ákváðum því að gera með honum heila breiðskífu.
Segið stuttlega frá upptökuferlinu
Eftir þessar fyrstu upptökur fórum við nokkrum sinnum út til Þýskalands, bæði gagngert til að taka upp og líka nýttum við tímann þegar við vorum að fara út til að spila og fórum þá nokkra daga í hljóðverið hans í leiðinni. Þessi plata er búin að vera 2 ár í smíðum. Hann er með stórt og flott hljóðver og í hljóðverinu er íbúð sem við gistum í. Þannig að við vöknuðum, tókum upp, grilluðum góðan mat og héldum svo áfram að taka upp þar til við gáfumst upp og fórum aftur í bælið. Það er einhvern veginn allt öðruvísi ferli en að hittast í stúdíói á Íslandi þar sem einhver þarf alltaf að vera að skreppa til að fara að gera eitthvað annað.
Það var svo síðasta vetur að við flugum Sky hingað til lands til að klára plötuna á Íslandi. Hann ætlaði að vera 2 vikur en var hér svo í rúman mánuð. Hann varð gríðarlega hrifinn af landinu og getur ekki beðið eftir því að komast hingað aftur.
Lögin Sink or Swim og We’ll Meet Again hafa ratað inn á útvarpsstöðvar landsins og gert góða hluti þar, eru öll lögin í þessum svipaða stíl?
Já og nei. Dikta hefur alltaf gert ansi fjölbreytilega tónlist og hafa plöturnar okkar innihaldið blöndu af alls kyns stílum. Á þessari plötu er stíllinn kannski aðeins fágaðri en oft áður og minna um tilraunamennsku. Okkur langaði einfaldlega að búa til góða popprokk plötu og okkur finnst að okkur hafi tekist það. Vonandi er fólk sammála því.
Komu fleiri að gerð plötunnar, fenguð þið einhverja listamenn til liðs við ykkur?
Við fengum Kristjón Daðason félaga okkar til að sjá um ýmis konar blásturshljóðfæri á plötunni, trompet, flygelhorn, básúnu og hvað þetta allt nú heitir. Einnig fengum við annan góðan félaga okkar, Hallgrím Jónas Jensson til að spila selló inn á nokkur lög. Hann er búinn að spila inn á allar plöturnar okkar nema þá allra fyrstu. Við fengum líka Örn Eldjárn til að plokka kassagítar í eitt lag og svo spilaði upptökustjórinn Sky van Hoff líka á ýmis hljóðfæri við vinnslu plötunnar.
Hvernig er týpískur tónleikadagur hjá ykkur, gerið þið eitthvað sérstakt til að undirbúa ykkur? Hafið þið komið ykkur upp einhverjum hefðum?
Við höfum allir persónulega einhverjar hefðir eða venjur. Nonni trommari fer til dæmis nánast aldrei á svið án þess að fara í sturtu fyrst. Sameiginlegar sturtuferðir hafa verið ræddar en menn mishrifnir af þeirri hugmynd. Við reynum oftast að borða saman fyrir tónleika en stundum gengur það ekki eftir vegna hljóðprufu. Við höfum nú spilað á Akureyri alloft í gegnum tíðina og höfum nánast alltaf borðað á Strikinu fyrir tónleika.
Eru fleiri tónleikar til að fylgja eftir plötunni?
Já, það verður talsvert um tónleikahald næstu mánuði til að kynna plötuna. Við vorum með útgáfutónleika í Hörpu í síðasta mánuði sem gengu vægast sagt frábærlega, uppselt og frábær stemmning. Svo verðum við með fullt af tónleikum í Airwaves vikunni, Rosenberg í nóvember og hitt og þetta annað sem skýrist á næstu vikum.
Hvert er svo framhaldið? Hvað er næsta á dagskrá?
Við ætlum að einbeita okkur að Íslandi alveg fram að áramótum. Verið er að vinna að útgáfu plötunnar utan landssteinanna og þegar það er komið í gegn munum við fara í tónleikaferðir til að kynna plötuna í þeim löndum sem hún kemur út í.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir